Hoppa yfir valmynd
23. október 2006 Forsætisráðuneytið

Úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði fyrir árið 2006

Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórn Íslands að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, sem ætlað er að veita fé til rannsókna á á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Til rannsókna í þessu sambandi teljast m.a. rannsóknir á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og enn fremur rannsóknir á áhrifum gildandi löggjafar, svo sem ákvæða laga um fæðingar- og foreldraorlof og um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Sérstaklega er horft til þátttöku ungra vísindamanna í þessum rannsóknarverkefnum.

Markmið með stofnun Jafnréttissjóðs er að tryggja að hér á landi verði unnar vandaðar rannsóknir á stöðu kynjanna á vinnumarkaði en slíkar rannsóknir geta verið lykill að bættri stöðu kvenna og karla og flýtt fyrir framgangi jafnréttis. Sjóðurinn starfar skv. reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs nr. 513/2006.

Að þessu sinni bárust 18 umsóknir og í ár fá 5 verkefni styrk samtals að upphæð 8,9 milljón króna og verða styrkirnir afhentir og verkefnin kynnt nk. þriðjudag, 24. október kl. 11 í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu.

Jafnréttissjóður er vistaður í forsætisráðuneytinu og skipar forsætisráðherra formann sjóðsins sem er Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Aðrir í stjórn sjóðsins eru Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir, sagnfræðingur, tilnefnd af menntamálaráðherra. Fanný Gunnarsdóttir, formaður jafnréttisráðs, tilnefnd af félagsmálaráðherra. Varamenn eru Fjóla Agnarsdóttir, hagfræðingur í forsætisráðuneytinu, Bolli Thoroddsen, verkfræðinemi og Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu.

 

Allar nánari upplýsingar veitir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, í gsm. 892 7982 eða [email protected].

 

                                                                                                                         Reykjavík, 23. október 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta