Hoppa yfir valmynd
24. október 2006 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins í Salekhard í Norður-Rússlandi

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra tekur þátt í ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Salekhard í Norður-Rússlandi fimmtudaginn 26. október nk.

Fundurinn er haldinn á tíu ára afmæli Norðurskautsráðsins sem er sameiginlegur vettvangur átta ríkja, ríkja Norður-Ameríku, Norðurlandanna og Rússlands, auk samtaka frumbyggja. Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun ráðsins hefur það gegnt brautryðjendahlutverki á sviði rannsókna og umhverfisvöktunar á norðurslóðum. Ísland hafði forystu í ráðinu á tímabilinu 2002 – 2004.  

Í ávarpi sínu á fundinum mun utanríkisráðherra fjalla um helstu viðfangsefni á dagskrá ráðsins, svo sem áhrif loftslagsbreytinga og breytinga á náttúrufari norðursins. Í því samhengi mun ráðherrann m.a vekja athygli á vaxandi auðlindanýtingu  og skipaflutningum og nauðsyn þess að aðildarríki bregðist við þessum breytingum með viðeigandi hætti. Einnig mun ráðherrann lýsa opnun svokallaðrar norðurslóðagáttarinnar (arcticportal.org), netvæddrar upplýsingaveitu sem Háskóli Akureyrar hefur haft forystu um að þróa í samvinnu við Norðurskautsráðið, Háskóla Norðursins og fleiri aðila.  

Á morgun, miðvikudaginn 25. október, mun utanríkisráðherra eiga viðræður við gestgjafa fundarins,  Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, en Rússar hafa gegnt formennsku í ráðinu undanfarin tvö ár. Á fundinum munu ráðherrarnir ræða tvíhliða samskipti ríkjanna og sameiginleg hagsmunamál í norðurslóðastarfi.  



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta