Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis veitt jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs árið 2006
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra afhenti í dag jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs á Grand Hóteli.
Jafnréttisráð ákvað að veita Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, viðurkenningu ráðsins árið 2006 en þetta var í fimmtánda skipti sem viðurkenningin er veitt.
Meginástæða þeirrar ákvörðunar er að hjá SPRON er lögð sérstök áhersla á skýra jafnlaunastefnu og afstaða starfsmanna til stöðu jafnréttis í fyrirtækinu er könnuð árlega.
SPRON er fjármálastofnun sem sýnir gott fordæmi í jafnréttismálum. Allt frá árinu 1997 hefur verið unnið eftir virkri jafnréttisáætlun en sérstök jafnréttisnefnd hefur það verkefni að fylgja henni eftir til hlítar. Hjá fyrirtækinu starfa 40 stjórnendur og þar af 21 kona. Frá árinu 2004 hefur konum fjölgað í efstu stjórnendastöðum en formaður stjórnar sjóðsins er Hildur Petersen.
Þá er sérstaklega til þess að taka að jafnlaunastefna er virk innan fyrirtækisins. Það felur í sér að árlega eru laun karla og kvenna hjá fyrirtækinu skoðuð sérstaklega í þeim tilgangi að gæta jafnréttis og koma í veg fyrir að mismunun eigi sér stað. Formaður starfsmannafélags SPRON hefur einnig heimild til að fá upplýsingar um launakjör starfsmanna í þeim tilgangi að gæta jafnréttis í launamálum kynjanna.
Á hverju ári er framkvæmd vinnustaðagreining til að kanna hug starfsmanna til ýmissa þátta í starfsumhverfi SPRON. Þá er meðal annars spurt um viðhorf til jafnréttismála hjá fyrirtækinu og hvort starfsmenn hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða einelti á vinnustað. Auk vitneskju um viðhorf starfsmanna hvetur vinnustaðagreining til umræðu og vekur athygli á viðbragðsáætlun SPRON í þessum efnum.
Jafnréttisráð telur að með þessum starfsháttum sýni SPRON gott starf á sviði jafnréttismála og vill með viðurkenningunni hvetja önnur fyrirtæki til líkrar starfsemi.