Sveiflur í fjármunamyndun
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 19. október 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Stóran hluta vaxtarins má skýra með aukinni atvinnuvegafjárfestingu, hvort heldur sem er í stóriðju, orkuverum eða öðrum atvinnugreinum.
Fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefur einnig aukist mikið hin síðari ár en dregið úr fjárfestingu hins opinbera. Raunvöxtur fjárfestingar hefur verið nokkuð sveiflukenndur í gegnum tíðina. Á síðustu fimmtán árum hafa sveiflur í fjármunamyndun mældar sem staðalfrávik magnbreytinga milli ára verið allt að fimmfalt meiri en sveiflur í landsframleiðslu. Víða erlendis er algengt að hlutfall fjármunamyndunar sé á bilinu 16%-23% af landsframleiðslu en hér á landi hefur meðaltalið verið um 20% undanfarin 15 ár. Sveiflur í fjármunamyndun virðast þó vera meiri hérlendis en í öðrum OECD-ríkjum og helst það í hendur við hagsveifluna.
Myndin sýnir samband milli breytileika í fjárfestingu sem hlutfalls af landsframleiðslu annars vegar og stærðar lands hins vegar, þar sem stærð lands er metin sem lógaritmi af vergri landsframleiðslu árið 2004 þar sem leiðrétt er fyrir mismun í kaupmætti. Mælingin sýnir að smærri lönd hafa tilhneigingu til að vera með meiri sveiflur í fjármunamyndun en þau stærri. Eins og sjá má er Ísland smæsta landið í úrtakinu og með mestar sveiflur í fjárfestingu á tímabilinu. Jafnvel að teknu tilliti til stærðar er Íslandi í hópi þeirra OECD-ríkja með mestar sveiflur í fjármunamyndun.