Hoppa yfir valmynd
26. október 2006 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 26. október 2006

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gerði hvalveiðar, krókaaflamarkskerfi við fiskveiðistjórnun, línuívilnum og byggðakvóta að umtalsefni í ræðu sinni á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var á Grand Hóteli í dag.

 

Í tengslum við hvalveiðar ræddi sjávarútvegsráðherra m.a. um þær rangfærslur sem vaða uppi um veiðarnar í erlendum fjölmiðlum og haldið er á lofti af ýmsum ráðamönnum, t.d. í Bretlandi, Svíþjóð og Ástralíu. „Það er mjög bágt að hugsa til þess að fulltrúar virðulegra ríkja sem vilja láta taka sig alvarlega á alþjóðlegum vettvangi, vinaþjóðir okkar á borð við Breta og Svía svo dæmi séu tekin, skuli fara með fleipur. Bera upp á okkur Íslendinga hluti sem fá ekki staðist og öllum á að vera ljóst að eru staðlausir stafir. Það er óhrekjanleg staðreynd að hvorug þeirra hvalategunda sem veiðar hafa verið leyfðar á, hrefna eða langreyður er í útrýmingarhættu hér við land, langt því frá.“

 

Ráðherra fjallaði um möguleika á að úthluta byggðakvóta með markvissari hætti en hingað til svo aflaheimildirnar skili því hlutverki sem til sé ætlast. Til dæmis mætti gera ríkari kröfur um að afla sé landað til vinnslu í heimabyggð. „Ég tel ennfremur koma til álita að skoða hvort úthluta eigi þessum byggðakvótum til lengri tíma í senn, að minnsta kosti að hluta til, í því skyni til að draga úr óvissu. Við vitum að óvissa er óvinur sjávarútvegsins, og eftir því sem óvissa eykst um starfsaðstæður greinarinnar þeim mun minni áhugi verður á því að fjárfesta til frambúðar.“

 

Grundvelli línuívilnunar sagði Einar Kristinn ekki standa til að breyta. Línuívilnun styrki byggðirnar og grundvöll smábátakerfisins.

 

Við setningu kvótaþaks í krókaaflamarkskerfinu sagði sjávarútvegsráðherra heildarhagsmuni hafa verið hafða að leiðarljósi. „Fullt tilefni var til þessarar lagasetningar. Samþjöppunin var heilmikil, við sáum að hún var að aukast hratt og stefndi í að verða óhæfilega mikil. Ég nefni það svo vegna þess að óheft áframhaldandi þróun hefði smám saman dregið máttinn úr ýmsum byggðarlögum og sú landfræðilega dreifing sem var meginforsenda krókaaflamarksins í upphafi, hefði brátt orðið úr sögunni. Hætt er við að ný átök hefðu hafist í kringum þetta fyrirkomulag – öllum til ills. Útgerðum, smáum sem stórum, og byggðunum ekki síst. Þess vegna var nauðsynlegt að grípa til aðgerða.“ Með þessu hafi menn viljað viðhalda sérstöðu þessa kerfis og þeim forsendum sem til grundvallar voru lagðar í upphafi. „Þess vegna var þetta algerlega óhjákvæmilegt að mínu mati og ég er ekki í nokkrum vafa um að hefur jákvæð áhrif þegar á heildina er litið“, sagði Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í dag.

 

Ræða sjávarútvegsráðherra á fundinum. 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 26. október 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum