Hoppa yfir valmynd
26. október 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Jónínu Bjartmarz á ráðstefnu LÍSU samtakanna, Landupplýsingar 2006

Ágætu fundarmenn

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á þessu haustþingi LÍSU samtakanna.

Nú á vorþingi voru samþykkt ný lög um Landmælingar Íslands sem taka gildi í ársbyrjun 2007. Eiga nýju lögin að tryggja að ákveðin grunngögn séu alltaf til staðar og stuðla að samræmi, gæðum og traustri skráningu upplýsinga. Verkefni Landmælinga Íslands verða nú betur skilgreind og skulu Landmælingar Íslands gera, viðhalda og miðla stafrænum þekjum í mælikvarðanum 1:50.000, ásamt því að vera umhverfisráðuneytinu til ráðuneytis á fagsviðum sem undir stofnunina falla og vera ráðgjafandi hvað varðar stefnumótun á sviði landmælinga og opinberrar grunnkortagerðar. Í nýjum lögum þá var samkeppnisrekstur stofnunarinnar einnig lagður niður og starfsemin löguð að breyttum aðstæðum á þessu sviði.

Ýmsar ríkisstofnanir vinna náið með Landmælingum Íslands á sviði landupplýsinga. Hér má nefna Staðlaráð á sviði staðla, Örnefnastofnun (nú Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum) við skráningu örnefna, Vegagerðina og Flugmálastjórn við kortlagningu samgöngukerfisins og ýmsa aðila s.s. félagsmálaráðuneytið við ákvörðun stjórnsýslumarka, s.s. mörk sveitarfélaga, umdæmi sýslumanna og þjóðlendur. Sjómælingar Íslands, sem starfa undir Landhelgisgæslunni, kortleggja ströndina og dýptarlínur í hafinu. Ýmsar stofnanir vinna við kortlagningu yfirborðs m.t.t. gróðurfars, jarðfræði, vatnafars, jökla o.fl. Nefna má stofnanir eins og Náttúrfræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Landgræðslan, Veðurstofa Íslands og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Skráning eigna og eignamarka er í höndum Fasteignamats ríkisins í samvinnu við sveitarfélög og sýslumenn og Skipulagsstofnun ber ásamt sveitarfélögum ábyrgð á skipulagsmálum þar sem mjög er byggt á margs konar landupplýsingum.

Áreiðanlegar landupplýsingar eru nauðsynlegar fyrir starf ýmissa öryggisstofnana s.s. Almannavarnadeilar ríkislögreglustjóra, Veðurstofunnar og Neyðarlínunnar. Sveitarfélög á Íslandi stunda einnig mörg að einhverju marki mælingar og kortagerð, sérstaklega vegna framkvæmda og skipulagsmála. Þá má nefna nokkur einkafyrirtæki sem stunda landmælingar og kortagerð á Íslandi og fjöldi fyrirtækja og verkfræðistofa veita þjónustu við úrvinnslu og miðlun landfræðilegra upplýsinga. Það sem allir framangreindir eiga sameiginlegt er að til að ná árangri er nauðsynlegt að eiga gott samstarf við fjölmarga aðra og gæta samræmis í vinnubrögðum svo að afurðir vinnunnar nýtist sem flestum.

Eins og þessi upptalning sem ég hef nefnt sýnir, sem er þó engan vegin tæmandi, þá eru ótal aðilar sem sinna eða koma að skráningu landupplýsinga í dag, en þó eru það enn fleiri sem eru mikilvægir notendur landupplýsinga. Söfnun landupplýsinga er vítt hugtak og þrátt fyrir að mikið hafi verið unnið í að safna landupplýsingum um náttúru og dýralíf á Íslandi er enn margt óunnið í þeim efnum. Slík vinna er grundvallaratriði sem mikilvægt er að við skilum framtíðinni og oft á tíðum er ómögulegt að sjá fyrir gildi slíkra grunnrannsókna þar sem staðsetningin er lykilatriði. Stofnanir umhverfisráðuneytisins hafa flestar mikilvægu hlutverki að gegna á þessu sviði. Ekki er hallað á neina þó hér sé nefnd sérstaklega Náttúrufræðistofnun Íslands með alla sína skráningu, flokkun, gerð vistfræðikorta og mat á náttúru landsins.

Til að ná fram sem bestri nýtingu opinberra landupplýsinga í Evrópu hefur Evrópusambandið unnið að því undanfarin ár að móta stefnu og gera tillögu að löggjöf um innra skipulag landupplýsinga í allri Evrópu. Þetta verkefni hefur hlotið nafnið INSPIRE og er lykilmarkmið þess að frekari og betri landfræðilegar upplýsingar verði aðgengilegar almenningi og stjórnvöldum í hverju landi. INSPIRE gengur út á að gera fyrirliggjandi landfræðileg gögn aðgengileg og gagnvirk. Aðal áherslan er lögð á upplýsingar sem nýtast við að fylgjast með og bæta ástand umhverfisins. Umhverfisráðuneytið hefur þegar hafið vinnu við að skoða þau tækifæri sem liggja í hugmyndafræði INSPIRE og er vinnuhópur að störfum í ráðuneytinu við að skoða þau mál. Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, mun fara nánar út í þetta verkefni hér á eftir.

Góð stefnumörkun og traust ákvarðanataka byggist á því að fyrir hendi séu traustar upplýsingar og að almenningur sé vel upplýstur. Miklar breytingar hafa og eru að eiga sér stað hvað varðar tækni og skipulag málaflokks landupplýsinga hér á landi. Ný lög og ný tækni kalla á breyttar áherslur , aðrar vinnuaðferðir og aukna áhersla á vöktun umhverfis okkar. Auknar kröfur koma frá samfélaginu um betri upplýsingar og veruleg aukning hefur orðið á áhuga almennings á náttúru landsins og náttúruvernd. Þess vegna eru samtök eins og LÍSA nauðsynleg til að efla samstarf með landfræðileg gögn og stuðla að samnýtingu gagna. Slíkt samstarf kemur öllum til góða.

Kæru fundarmenn. Það er ósk mín að LÍSU samtökin haldi áfram því góða starfi sem þau hafa sinnt af kappi á undanförnum árum bæði hvað varðar vinnureglur um samskipti og gagnaflutninga, mótun staðla, að stuðla að tæknilegri samræmingu, vinnu að kynningar- og fræðslumálum ásamt því að gæta hagsmuna Íslands í alþjóðlegu samstarfi. En ekki síst að vera mikilvægur vettvangur fyrir félagsmenn og aðra til umræðna og skoðanaskipta.

Ég óska LÍSU samtökunum velfarnaðar á komandi árum og vænti þess að eiga áfram ánægjulegt og árangursríkt samstarf við samtökin í framtíðinni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta