Úthlutun úr Jafnréttissjóði
Þriðjudaginn 24. október sl. var úthlutað styrkjum úr Jafnréttissjóði. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður Jafnréttissjóðs gerði grein fyrir störfum stjórnar sjóðsins. Að þessu sinni bárust 19 umsóknir og styrkbeiðnir námu samtals 55 milljónum króna og í ár fengu 5 verkefni styrk samtals að upphæð 8,9 milljón króna. Alls bárust 13 umsóknir frá konum og 6 frá körlum. Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra afhenti styrkina. Þau verkefni sem fá styrk eru eftirfarandi:
1. Félagsleg áhrif launavæntingar kynjanna. Umsækjandi og verkefnisstjóri Haukur Freyr Gylfason adjunkt við viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Auk Hauks munu vinna að þessu verkefni Albert Arnarson, vinnusálfræðingur og ráðgjafi hjá Hagvangi og stundakennari við Háskóla Íslands og Tryggvi R. Jónsson sem síðasta laugardag útskrifaðist með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá HÍ. Í verkefninu er leitast við að varpa ljósi á launamun kynjanna með því að skoða þætti sem ekki hafa verið skoðaðir áður en það er annars vegar kynjabundinn munur á væntingum til launa fyrir ákveðið starf og hins vegar áhrif félagslegs samanburðar á launakröfur kynjanna. Þeir félagar munu reyna að leita svara við spurningum eins og Gera karlar og konur mismunandi kröfur um laun fyrir sömu störf? Eru viðmiðunarhópar karla og kvenna ólíkir þegar kemur að kröfum um laun? Sjá nánar í skjali.
2. Kynbundið starfsval og gildi – samband launa, viðurkenningar og verðleika. Umsækjandi og verkefnisstjóri er Agnes Sigtryggsdóttir en hún stundar doktorsnám í kynjafræðum við Háskóla Íslands og er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Faglegir ráðgjafar og leiðbeinendur eru Þorgerður Einarsdóttir dósent í kynjafræði við félagsvísindadeild HÍ og Sigríður Þorgeirsdóttir dósent í heimspeki við hugvísindadeild HÍ. Í verkefninu er leitast við að kortleggja kynjaskiptingu á íslenskum vinnumarkaði gerð verður samantekt á stöðu kynjanna, laun og kjör skoðuð út frá kenningum um sambærileg gildi. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvað orsakar kynjamisræmið á vinnumarkaðnum. Leitast verður við að greina hvernig kynbundið gildismat og viðurkenningarmynstur mótar afstöðu til starfa út frá hugmyndum um kynbundna hlutverkaskiptingu og hvernig framlag kynjanna er metið að verðleikum.
3. Reynsla af fæðingarorlofi og samspili vinnu og einkalífs frá sjónarhóli feðra og maka þeirra. Umsækjandi og verkefnsstjóri er Auður Arna Arnardóttir sálfræðingur og sérfræðingur við Háskólann í Reykjavík. Með Auði munu Leifur Geir Hafsteinsson, lektor við HR og Sturla Jóhann Hreinsson, starfsmannastjóri Nýherja vinna að þessu verkefni. Í verkefninu eru könnuð ýmis atriði tengd feðraorlofi íslenskra karlmanna með það fyrir augum að bæta við þekkingu og upplifun og reynslu fjölskyldna af feðraorlofi og kanna með markvissari hætti en áður hefur verið gert hvort lögin nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof séu að ná markmiði sínu sem er að gera bæði körlum og konum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
4. Óútskýrður launamunur kynjanna. Umsækjandi er Þorlákur Karlsson, deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Verkefnisstjóri er Margrét Jónsdóttir dósent við Háslólann í Reykjavík og með þeim mun Hólmfríður Vilhjálmsdóttir sérfræðingur við HR starfa að verkefninu. Í verkefninu er ætlunin að kanna viðhorf stjórnenda og starfsmanna til þess sem teljast megi sanngjörn laun og athuga hversu kynbundið viðhorfið er. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna viðhorf fólks til „sanngjarnra” launa. Lagðar verða starfslýsingar fyrir fólk þar sem það er beðið að meta hversu há laun væri sanngjarnt að greiða fyrir eða biðja um fyrir viðkomandi störf. Þátttakendum er skipt í tvo hópa og eini munurinn á starfslýsingunni er kynferði. Þannig er mat þátttakenda á „sanngjörnum” launum kannað með tilliti til kynferðis. Sjá nánar í skýrslu á vef HR.
5. Umönnun og atvinnuþátttaka foreldra barna 3 ára og yngri – Hvaða áhrif hafa lög um fæðingar- og foreldraorlof haft? Umsækjandi og verkefnisstjóri er Guðný Björk Eydal dósent í félagsráðgjöf við félagsvísindadeild HÍ. Auk Guðnýjar munu sérfræðingar við Félagsvísindastofnun og framhaldsnemendur koma að vinnu þessa verkefnis sem og Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd. Í verkefninu er ætlunin að meta áhrif hinna nýju laga um fæðingar- og foreldraorlof með því að bera saman hvernig foreldrar ungra barna hafað hagað atvinnuþátttöku og umönnun barna annars vegar áður en lögin tóku gildi og hins vegar eftir að þau tóku gildi árið 2003. Með þessu er verið að afla þekkingu á því hvernig íslenskir foreldrar höguðu atvinnuþátttöku og deildu með sér ábyrgð á umönnun barna sinna eftir gildistöku laganna. Enn fremur er ætlunin að meta áhrif hinna nýju laga með því að bera saman niðurstöður við sambærilegar mælingar sem framkvæmdar voru árið 2001 og loks að öðlast þekkingu á aðstæðum íslenskra barnafjölskyldna. Sjá nánar í skjali.
Reykjavík 26. október 2006