Hoppa yfir valmynd
27. október 2006 Matvælaráðuneytið

Strandríkjasamkomulag um stjórn kolmunnaveiða fyrir árið 2007

Fyrsta fundi aðila strandríkjasamnings um stjórnun kolmunnaveiða lauk í Þórshöfn í Færeyjum í dag. Samningurinn var gerður seint á síðasta ári og kom böndum á þær stjórnlausu veiðar sem viðgengist höfðu árin á undan.

Samkvæmt samningnum fær Ísland í sinn hlut 17,63% af heildaraflamarki strandríkjanna, Evrópusambandið 30,5%, Færeyjar 26,125% og Noregur 25,745%.

Heildaraflamark strandríkjanna árið 2006 var tvær milljónir tonna. Ljóst var að um of mikla veiði var að ræða, en samkomulag varð samt um þessa tölu vegna þess hve mikilvægt væri fyrir framtíð veiðanna að ná samkomulagi um stjórnunina jafnvel þótt of mikið yrði veitt í upphafi samningstímans.

Í samningnum er ákvæði um að heildaraflamark skuli lækka um minnst 100.000 tonn milli ára þangað til því marki verði náð að veiðarnar séu í samræmi við veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Fyrir ári síðan var gert ráð fyrir því að þetta fæli í sér jafna lækkun þar til heildaraflamark yrði ein og hálf milljón tonna, en ráðgjöf ICES er nú sú að nauðsynlegt muni reynast að minnka veiðarnar enn meira til þess að þær verði sjálfbærar til lengri tíma.

Samkomulag náðist meðal strandríkjanna um að lækka heildaraflamark þeirra um 300.000 tonn milli ára, eða um 15%. Alls munu þau því heimila skipum sínum að veiða 1,7 milljónir tonna á árinu 2007. Veiðiheimildir annarra en strandríkjanna, þ.e. Rússlands og Grænlands, verða ákveðnar á ársfundi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC) í næsta mánuði og með tvíhliða samkomulagi þessara aðila við strandríkin.

Samkvæmt samkomulaginu verður íslenskum skipum heimilað að veiða 299.710 tonn árið 2007, sem er 15% lækkun frá þeim 352.600 tonnum sem heimilt er að veiðar í ár.

Í sendinefnd Íslands á strandríkjafundinum voru Stefán Ásmundsson sjávarútvegsráðuneytinu, formaður, og Kristján Þórarinsson LÍÚ.

Sjávarútvegsráðuneytið 27. október 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum