Halldór Ásgrímsson kjörinn framkvæmdastjóri skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar
Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur verið kjörinn framkvæmdastjóri skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðherranefndin er samstarfsstofnun ríkisstjórna Norðurlanda og fara forsætisráðherrar landanna með yfirumsjón með henni. Þeir fela þó samstarfsráðherrum og Norrænu samstarfsnefndinni að sjá um daglega samhæfingu pólitísks samstarfs landanna. Jónína Bjatmarz umhverfisráðherra er samstarfsráðherra Norðurlanda fyrir Íslands hönd.
Á fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna í Kaupmannahöfn í gær sátu Halldór Ásgrímsson og Finninn Jan-Erik Enestam fyrir svörum, en þeir komu báðir til greina sem næsti framkvæmdastjóri skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Jónína mun á morgun sitja fund umhverfisráðherra Norðurlandanna á yfirstandandi Norðurlandaráðsþingi.
Jónína lýsti yfir ánægju sinni með skipan Halldórs og segir að hér sé um merk tímamót að ræða því aldrei áður hafi Íslendingur gegnt svo veigamiklu embætti í samstarfi Norðurlandaþjóða.
Starf framkvæmdastjóra skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar er mikilvægasta embættið í norrænu samstarfi og framkvæmdastjórinn kemur að stefnumörkun í samstarfinu með virkum hætti. Hann er jafnframt ritari ráðherranefndarinnar og situr fundi hennar.
Skrifstofa ráðherranefndarinnar er í Kaupmannahöfn og þar starfa um 80 manns. Svíinn Per Uncel hefur gegnt starfinu frá árinu 2003 og hverfur nú til annarra starfa í Svíðþjóð.
Halldór Ásgrímsson hefur í gegnum tíðina starfað ötullega á vettvangi norræns samstarfs. Hann gegndi starfi samstarfsráðherra Norðurlanda frá 1985 til 1987 og aftur 1995 til 1999. Þá sat hann til fjölda ára í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og gegndi þar formennsku 1982 til 1983 og 1993 til 1995. Hann var formaður hóps miðjuflokkanna í Norðurlandaráði 1993 til 1995.
Frekari upplýsingar um samstarf Norðurlanda má nálgast á www.norden.org og á vef Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins.