Hoppa yfir valmynd
31. október 2006 Innviðaráðuneytið

Pétri K. Maack afhent skipunarbréf

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti í gær Pétri K. Maack skipunarbréf í embætti flugmálastjóra frá 1. janúar næstkomandi.

Skipunarbr. P.Maack
Sturla Böðvarsson afhenti Pétri K. Maack skipunarbréf í gær.

Breytt skipan flugmála tekur gildi um næstu áramót þegar opinbera hlutafélagið Flugstoðir ohf. tekur til starfa. Þorgeir Pálsson, núverandi flugmálastjóri, hefur verið ráðinn forstjóri hins nýja félags og lætur hann af starfi flugmálastjóra um næstu áramót. Hlutverk Flugstoða ohf. er að sinna flugumferðarþjónustu og rekstri flugvalla sem til þessa hefur heyrt undir Flugmálastjórn.

Jafnframt taka gildi um áramót ný lög um Flugmálastjórn Íslands og verður hlutverk hennar hér eftir sem hingað til að annast stjórnsýslu og eftirlit vegna flugstarfsemi. Sex manns sóttu um embætti flugmálastjóra þegar það var auglýst í lok september og skipaði samgönguráðherra Pétur K. Maack í embættið. Var honum afhent skipunarbréf því til staðfestingar á skrifstofu samgönguráðherra í gær.

Pétur K. Maack hefur í tæpan áratug starfað sem framkvæmdastjóri flugöryggissviðs Flugmálastjórnar Íslands. Pétur er rekstrarverkfræðingur með meistarapróf í vélaverkfræði frá Danmarks tekniske Hojskole og doktorspróf í rekstrarverkfræði frá sama skóla. Reynsla hans í flugmálum er víðtæk og spannar nánast öll svið flugmála meðal annars vottunar- og viðhaldsmál, flugrekstur, þjálfun flugliða, rekstur flugvalla, flugverndarmál og alþjóðaflugmál. Þá býr hann yfir reynslu í alþjóðlegu samstarfi bæði hvað varðar rannsóknir og kennslu á háskólastigi sem og í flugheiminum. Um árabil var hann dósent við verkfræðideild Háskóla Íslands og seinna prófessor við sömu deild.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta