Kaup ríkisins í Landsvirkjun
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 31/2006
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík og Kristján Þ. Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri rituðu í dag undir samning um kaup íslenska ríkisins á eignarhlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.
Reykjavíkurborg og Akureyrarbær eiga samanlagt 50% í fyrirtækinu, þar af nemur eignarhluti Reykjavíkurborgar 44,525% og eignarhluti Akureyrarbæjar 5,475%. Kaupverð eignarhlutanna nemur samtals 30,25 milljörðum króna og verða 3,4 milljarðar króna greiddir við gildistöku samningsins hinn 1. janúar nk.
Eftirstöðvar kaupverðsins verða greiddar með skuldabréfum til 28 ára og renna greiðslurnar til lífeyrissjóða sveitarfélaganna, þ.e. Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar, til að mæta lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna þeirra.
Samningurinn er með fyrirvara um samþykki Alþingis, borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akureyrar.
Fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri
Reykjavík, 1. nóvember 2006