Upplýsingafulltrúi félagsmálaráðuneytisins
Þór Jónsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi félagsmálaráðuneytisins.
Þór mun vinna að þróun og uppbyggingu upplýsingamála í félagsmálaráðuneytinu. Hann mun sinna almennri upplýsingagjöf og samskiptum við fjölmiðla, uppbyggingu heimasíðu félagsmálaráðuneytisins og aðgengis að henni, útgáfu rafræns fréttabréfs, útgáfu upplýsingaefnis á vegum ráðuneytisins og hvers kyns verkefnum á sviði upplýsingamála.
Þór er fæddur árið 1964 og er þriggja barna faðir. Hann lauk prófi frá Blaðamannaháskólanum í Stokkhólmi árið 1991 og hefur sótt námskeið í blaðamennsku og fjölmiðlarétti hér á landi og erlendis. Hann hefur starfað á fjölmiðlum frá árinu 1985, þar af á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og NFS frá árinu 1990, með einu hléi frá 1992–1994. Þór hefur verið varafréttastjóri frá árinu 2001.
Þór hefur jafnframt annast stundakennslu við Háskóla Íslands í hagnýtri fjölmiðlun (siðareglur/upplýsingalög o.fl.), í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu (siðareglur/upplýsingalög o.fl.), í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku (upplýsingalög), og flutt fyrirlestra við lagadeild um fréttaflutning af dóms- og sakamálum og aðgang fjölmiðla að dómstólum.
Þór hefur unnið ýmis verkefni fyrir Norrænu ráðherranefndina og situr nú í stjórn Norræna blaðamannaskólans í Árósum. Einnig hefur hann skrifað tvær bækur; annars vegar um ævi Sigurðar Demetz Franzsonar og hins vegar um skotveiði.