Ráðstefna um öryggi siglinga á Norður-Atlantshafi.
Í dag, 2. nóvember, hefur alþjóðleg ráðstefna sérfræðinga um siglingar, öryggismál og olíu- og gasflutninga verið haldin á Hótel Loftleiðum að frumkvæði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason setti ráðstefnuna og sagði hana lið í viðleitni íslenskra stjórnvalda til að búa Landhelgisgæslu Íslands og íslenskar stofnanir, sem bera ábyrgð á öryggi á höfunum, sem best undir ný verkefni. Þau mætti rekja til brottfarar varnarliðsins og aukins áhuga á olíu- og gasvinnslu fyrir norðan Noreg og Rússland.
Ísland er á miðri siglingaleið sífellt fleiri og stærri olíu- og gasflutningaskipa um Norður-Atlantshaf frá Rússlandi til Bandaríkjanna. Því er spáð, að árið 2015 kunni 500 fulllestuð 100.000 tonna olíuskip að fara um efnahagslögsögu Íslands á ári hverju og svipaður fjöldi 55.000 tonna gasflutningaskipa. Sumir telja, að skipin kunni að verða færri en stærri t.d. 300.000 til 500.000 tonna olíuskip og 100-150.000 tonna gasskip. Tilgangur ráðstefnunnar var að kynnast mati erlendra sérfræðinga á þessari þróun en ráðstefnugestir og ræðumenn voru frá Noregi, Danmörku, Rússlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum auk Íslands.
Björn Bjarnason lagði áherslu á, að Íslendingar vildu samstarf við granna í austri og vestri um leit- og björgun, öryggis- og varnarmál í tengslum við þessar siglingar Ljóst væri, að engin ein þjóð gæti tryggt öryggi á siglingaleiðum á Norður-Atlantshafi. Mikilvægt væri að samhæfa rétt viðbrögð við hverskyns yfirvofandi hættu.
Á ráðstefnunni voru menn sammála um, að meta þyrfti af raunsæi áhættu vegna þessara siglinga og undirbúa viðbrögð, ef eitthvað færi úrskeiðis. Þá myndu öryggis- og varnarhagsmunir vaxa í réttu hlutfalli við mikilvægi siglingaleiða í þágu olíu- og gasflutninga, ekki síst til Norður-Ameríku. Rætt var um alþjóðlegar skuldbindingar strandríkja, sem verða að axla kostnaðarsamar og umfangsmiklar aðgerðir til að tryggja öryggi og varnir siglingaleiða um efnhagslögsögu sína.
Reykjavík 2. nóvember 2006