Hið opinbera sýni gott fordæmi, segir félagsmálaráðherra á málþingi um launajafnrétti
Aðilar vinnumarkaðarins verða kallaðir til samstarfs við stjórnvöld um að vinna gegn launamun kynjanna, sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra í ávarpi sínu á fjölmennu þingi um málefnið í Háskólanum á Bifröst föstudaginn 3. nóvember 2006.
Í nýlegri skýrslu Capacent um kynbundinn launamun og launamyndun kemur fram að óútskýrður launamunur hafi aðeins minnkað um 0,3% síðan 1994 og er nú að meðaltali 15,7%.
„Ég mun á næstunni kalla aðila vinnumarkaðarins til samstarfs við stjórnvöld, bæði atvinnurekendur og stéttarfélög“, sagði ráðherra. „Ég hef kynnt niðurstöður Capacent í ríkisstjórninni og lagt áherslu á að ég ætlast til þess að hið opinbera sýni gott fordæmi. Ég fékk góðar undirtektir og ætlast til þess að við séum betur vakandi en við höfum verið. Ég hef jafnframt ákveðið að kalla þegar til liðs við mig hóp fólks á ýmsum sviðum samfélagsins sem hefur þekkingu til að takast á við kynbundna mismunun á vinnumarkaði.“
Runólfur Ágústsson, rektor háskólans, setti þingið með þeim orðum að það væri óviðunandi fyrir uppalendur að dætur þeirra þyrftu að búa við lakari kost á vinnumarkaði en synir þeirra. Aðrir sem til máls tóku auk ráðherra voru Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, rannsóknarstjóri hjá Capacent, Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, og Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri hjá SPRON.
Í pallborðsumræðunum lýstu menn efasemdum um að afnám launaleyndar leysti vandamál tengd kynbundnu launamisrétti en flestir vonbrigðum með að jafnréttislög hefðu ekki skilað betri árangri en raun ber vitni á meira en fjórum áratugum. Þróunin upp á síðkastið væri á hinn bóginn í rétta átt og vinnuveitendur sýndu aukna ábyrgð og þróuðu nýjar aðferðir til að minnka kynbundinn launamun.
Félagsmálaráðuneytið stóð fyrir málþinginu í samvinnu við Rannsóknasetur vinnuréttar- og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst. Fundarstjóri á málþinginu var Elín Blöndal, forstöðumaður Rannsóknaseturs vinnuréttar- og jafnréttismála.