Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing um launajafnrétti

Ágætu málþingsgestir.

Yfirskrift þessa málþings gefur okkur vissulega tilefni til þess að áætla að við séum að ferðast á hraða snigilsins þegar launajafnréttismál eru annars vegar en sú líking var einmitt notuð á málþingi Jafnréttisráðs um konur og stjórnmál sem haldið var á kvennafrídaginn svonefnda 24. október síðastliðinn.

Fyrir 45 árum samþykktu alþingismenn lög um launajöfnuð kvenna og karla, þar sem kveðið var á um að á árunum 1962–1967 skyldu laun kvenna hækka til jafns við laun karla fyrir sömu störf. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu sagði meðal annars að baráttan fyrir jöfnum launum kvenna og karla væri ekki einvörðungu kjarabarátta af hálfu kvenna, heldur engu að síður barátta fyrir fullkomlega jöfnum mannréttindum og að augljóst væri að launajöfnuður yrði ekki tryggður á annan hátt hér á landi en með löggjöf.

Ég er sannfærður um að forvera mína á Alþingi hafi ekki órað fyrir því að lögin sem þeir samþykktu árið 1961 og þau lög sem síðar hafa verið sett um jafna stöðu kvenna og karla hefðu ekki meiri áhrif en raun ber vitni. En eru breytingar í sjónmáli nú? Ég hef ákveðna skoðun á því en ég læt ykkur um að meta það eftir kynningu Guðbjargar Andreu hér á eftir.

Lögin um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla hafa þróast mjög á þeim þrjátíu árum sem þau hafa verið í gildi en þau hafa verið endurskoðuð á árunum 1985, 1991 og 2000. Gildandi lög leggja skýrt bann við mismunun í launakjörum en þau lög sæta nú endurskoðun í þverpólitískri nefnd undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem meðal annars mun nú nýta sér niðurstöður hinnar nýju rannsóknar. Ég bind miklar vonir við það starf.

Stefna stjórnvalda hefur verið skýr um áratuga skeið. Við viljum útrýma kynbundnum launamun þar sem störf kvenna og karla eiga að vera metin eftir sömu viðmiðum. Þessi stefna kemur skýrt fram í lögum sem virðast þó ekki vera virt. Stjórnvöld hafa jafnframt beitt sér fyrir ýmsum verkefnum á þessu sviði og hvatningu til fyrirtækja og stofnana. Það virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri að því er varðar kynbundinn launamun.

Við eigum að líta á rannsóknarniðurstöðurnar nú sem mikilvæga hvatningu óháð stjórnmálaskoðunum og óháð því hvort við erum fulltrúar hins opinbera eða einkamarkaðarins. Ég vil ekki skorast undan minni ábyrgð enda þótt mér virðist ljóst að tæki til breytinga liggi fyrst og fremst hjá þeim sem taka launaákvarðanir, hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera.

Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið hérlendis á launamun kynjanna sýna svipaðar niðurstöður þegar kemur að svokölluðum „óútskýrðum“ launamun, það er launamun sem virðist ekki unnt að skýra með öðru en að konur fái lægri laun vegna þess að þær eru konur. Þessi launamunur er í flestum könnunum á bilinu 14–18% og hefur á heildina litið lítið eða ekki breyst síðustu ár. Það staðfestir því miður hin nýja, viðamikla og vel unna skýrsla sem Capacent hefur unnið fyrir félagsmálaráðuneytið og verður kynnt hér á eftir.

Einn af þeim þáttum sem virðast liggja að baki launamun kynjanna er mismunandi fjölskylduábyrgð. Ef litið er til skattframtala fyrir árið 2004 þá voru atvinnutekjur giftra kvenna og kvenna í sambúð 24% hærri en ógiftra kvenna. Atvinnutekjur giftra karla og karla í sambúð voru hins vegar 50% hærri en laun ógiftra karla. Atvinnutekjur giftra karla voru 48% hærri en laun giftra kvenna.

Í rannsókn sem unnin var fyrir Jafnréttisráð árið 2003 og meðal annars gerð grein fyrir í skýrslu um efnahagsleg völd kvenna kemur skýrt fram hvað fjölskylduábyrgð hefur mismunandi áhrif á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Milli 7,5 og 11% af þeim launamuni karla og kvenna sem þar birtist má skýra með því að hjónaband og barneignir hafi önnur áhrif á laun karla en kvenna.

Aðrar athuganir sýna svipaða þætti. Þegar Hagstofa Íslands kannaði vinnutíma karla og kvenna árið 2002 með tilliti til barneigna kom í ljós að börn á heimili höfðu þveröfug áhrif á vinnutíma kynjanna. Þeim mun fleiri börn sem karlar áttu þeim mun lengri var vinnudagur þeirra. Þeim mun fleiri börn sem konur áttu, þeim mun styttri var tími þeirra í launavinnu. Barnlausir karlar unnu að meðaltali 48 stundir á viku, þeir sem áttu eitt barn undir 6 ára aldri unnu 51,3 stundir og ef börnin voru tvö og það yngsta undir sex ára aldri voru vinnustundirnar 51,6. Hjá konum voru sambærilegar tölur þannig að barnlausar konur unnu að meðaltali 37,8 stundir, þær með eitt barn 33,3 og þær sem voru með tvö börn unnu 32,8 stundir.

Af þessu virðist mér vera ljóst að ef ekki tekst að jafna stöðu karla og kvenna gagnvart börnum og fjölskylduábyrgð þá verður illmögulegt að útrýma launamun þeirra.

Vonir standa til að þær breytingar sem gerðar voru á lögum um fæðingarorlof árið 2000 muni stuðla að slíkri breytingu. Athuganir sem gerðar hafa verið erlendis sýna að feður sem eru virkir við umönnun smábarna halda áfram að vera virkari við uppeldi og umhyggju barna sinna en þeir sem lítið komu að þeim málum í upphafi. Þeir eru einnig virkari við önnur heimilisstörf. Þá eru konur sem eiga slíka menn líklegri til þess að eiga fleiri en eitt barn og það er mikilvægt fyrir framtíð okkar samfélags. Slík atriði eru meðal þeirra áhrifa sem við vonumst til að íslenska fæðingarorlofið muni hafa.

Sem stjórnmálamanni finnst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá að niðurstöður könnunar Capacent benda til þess að ákvæði um fæðingarorlof feðra hafi haft raunveruleg áhrif. Það vil ég undirstrika hér og jafnframt að Jafnréttisstofa og félagsmálaráðuneytið vinna nú að sérstökum rannsóknum á því hvernig það er nýtt og þá jafnframt hvort lögin eru að ná tilgangi sínum. Þessi lög eru jafnframt mjög gott dæmi um það hverju samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins getur skilað því slík samvinna var forsenda þess að lögin næðu fram að ganga og síðar að þau næðu tilgangi sínum í framkvæmd.

Það er þó visst áhyggjuefni hversu stórt bil er milli þess að fæðingarorlofi lýkur og leikskólar taka við börnum. Þetta bil gæti unnið gegn jafnréttisáhrifum fæðingarorlofslaganna vegna þess að meðan launamunur kynjanna er jafn mikill og hann er, þá er það svo í meirihluta fjölskyldna að ef annar aðilinn minnkar við sig vinnu eða yfirgefur vinnumarkaðinn til að sinna barni eða börnum þá er fjárhagslega skynsamlegast að það sé konan.

Slíkt mun að öllum líkindum ekki aðeins leiða til tekjutaps hennar þann tíma sem hún er heima heldur einnig leiða til lengingar á vinnutíma karlsins og til þess að konan dregst aftur úr á flestum sviðum á vinnumarkaðinum. Erlendar rannsóknir sýna að það taki konur sem verið hafa í slíkum aðstæðum, áratugi að ná upp forskoti þeirra sem ekki yfirgefa vinnumarkaðinn.

Í áðurnefndri skýrslu um efnahagsleg völd kvenna kom einnig fram að 21–24% af launamuninum mætti skýra með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi kynjanna. Það er í samræmi við ýmsar erlendar athuganir sem benda til þess að kynjaskipting vinnumarkaðarins sé ein meginskýringin á launamun kynjanna. Það er því verðugt verkefni að reyna að breyta þeirri kynjaskiptingu. Ef til vill verður það best gert með því að reyna að gera ungmennum betri grein fyrir öllum þeim möguleikum sem þeim standa opnir hvað varðar menntun og atvinnu. Félagsmálaráðuneytið er einmitt að feta sig áfram á þeirri braut með sérstakri heimasíðu sem beint er til ungmenna, námsráðgjafa, kennara og foreldra í þeim tilgangi að fá þessa aðila til að velta fyrir sér óhefðbundnum mennta- og atvinnumöguleikum.

Síðunni er  ætlað að vera liður í viðleitni til að opna dyr og fjarlægja  þröskulda í þessu efni og stuðla að auknu jafnrétti í nútíð og framtíð og eitt dæmi af fjölmörgum um mögulegar aðferðir stjórnvalda, um verkfæri sem eru í verkfærakistunni og við eigum ekki að láta liggja þar heldur nota.

Þessi ráðstefna hér í dag markar skref á þeirri vegferð sem framundan er. Ég mun á næstunni kalla aðila vinnumarkaðarins til samstarfs við stjórnvöld, bæði atvinnurekendur og stéttarfélög. Ég hef kynnt niðurstöður Capacent í ríkisstjórninni og lagt áherslu á að ég ætlast til þess að hið opinbera sýni gott fordæmi. Ég fékk góðar undirtektir og ætlast til þess að við séum betur vakandi en við höfum verið. Ég hef jafnframt ákveðið að kalla þegar til liðs við mig hóp fólks á ýmsum sviðum samfélagsins sem hefur þekkingu til að takast á við kynbundna mismunun á vinnumarkaði. Ég tel alla þá sem eru hér með fyrirlestra og í pallborði í þeim hópi og er sannfærður um að í dag fæðast nýjar hugmyndir og vonandi enn meiri samstaða en áður hefur ríkt. 

Mikilvægast er að ekkert okkar missi trúna á að við getum haft áhrif. Að við getum náð raunverulegum árangri til þess að bæta samfélagið okkar að þessu leyti.  



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta