Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2006 Utanríkisráðuneytið

Fundir utanríkisráðherra með forseta og utanríkisráðherra Úkraínu

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisáðherra og Boris Tarasjúk utanríkisráðherra Úkraínu
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisáðherra, og Boris Tarasjúk, utanríkisráðherra Úkraínu

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 079

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fundi með Viktor Jústsjenkó forseta Úkraínu og Borys Tarasjúk utanríkisráðherra.

Á fundi sínum fjölluðu utanríkisráðherra Íslands og forseti Úkraínu um tvíhliða samskipti Íslands og Úkraínu og fögnuðu vaxandi samskiptum milli landanna. Jafnframt ræddu þau áform Úkraínu varðandi aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu og tengsl landsins við Evrópusambandið.

Á fundi sínum með Borys Tarasjúk utanríkisráðherra Úkraínu fjölluðu ráðherrarnir um tvíhliða samskipti og vaxandi viðskipti landanna, auknar fjárfestingar Íslendinga í Úkraínu, Atlanthafsbandalagið, samskiptin við Evrópusambandið og möguleika á auknu samstarfi EFTA og Úkraínu. Þá kynnti Valgerður Sverrisdóttir framboð Íslands til sætis í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Fyrr um morguninn lagði Valgerður Sverrisdóttir blómsveig að minnismerki um fórnarlömb hungursneyðarinnar í Úkraínu veturinn 1932-33, en þann vetur er talið að um 7 milljónir íbúa Úkraínu, eða fjórðungur þjóðarinnar, hafi dáið úr hungri í kjölfar refsiaðgerða Stalíns vegna andstöðu Úkraínumanna við áætlanir hans um samyrkjubúskap.

Í lok dagsins hélt utanríkisráðherra ávarp á viðskiptaráðstefnu í Kænugarði, en samhliða opinberu heimsókninni fer ráðherra fyrir viðskiptasendinefnd á vegum Útflutningsráðs. Í ávarpi sínu lýsti ráðherra yfir ánægju með vaxandi samvinnu úkraínskra og íslenskra fyrirtækja og fjallaði um mikilvægi þess að stjórnvöld komi á viðskiptasamningum til að greiða fyrirtækjum leið. Greindi ráðherra m.a. frá að tvísköttunarsamningur milli ríkjanna væri á lokastigi og að viðræður væru hafnar um gerð fjárfestingasamnings. Jafnframt stæði til að hefja viðræður um loftferðasamning og undirbúning fríverslunarsamnings á vegum EFTA.



Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisáðherra og Boris Tarasjúk utanríkisráðherra Úkraínu
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisáðherra, og Boris Tarasjúk, utanríkisráðherra Úkraínu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta