Fundur utanríkisráðherra með forsætisráðherra Úkraínu
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 081
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í morgun fund með Viktor Janúkóvitsj forsætisráðherra Úkraínu. Á fundi sínum fjölluðu ráðherrarnir meðal annars um tvíhliða samskipti Íslands og Úkraínu, áform Úkraínu um aðild landsins að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og möguleika á fríverslunarsamningi á milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu. Þá voru söguleg tengsl Úkraínu og Íslands í gegnum tíðina rædd.
Í eftirmiðdaginn átti utanríkisráðherra einnig fund með Valery Pyatnisky aðstoðarefnahagsráðherra Úkraínu. Á fundinum ræddu ráðherrarnir aukin viðskipti landanna og fjárfestingar Íslendinga í Úkraínu. Þá ítrekaði aðstoðarefnahagsráðherrann áhuga Úkraínu á fríverslunarsamningi við EFTA-ríkin.
Ennfremur heimsótti utanríkisráðherra starfsstöð Actavis í Kænugarði og kynnti sér jafnframt starfsemi Creditinfo Group sem hóf nýlega samstarf við samtök banka í Úkraínu.