Lækkandi skuldabyrði ríkissjóðs
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 2. nóvember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Eins og fram kemur í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár standa ríkisfjármálin á mjög traustum grunni hér á landi.
Staða ríkissjóðs hefur verið að styrkjast jafnt og þétt á undanförnum árum meðal annars vegna þess að ríkisreksturinn og einkavæðing hafa skilað drjúgum lánsfjárafgangi sem varið hefur verið að stórum hluta til að greiða niður skuldir ríkisins frá fyrri tíð. Þannig hafa heildarskuldir ríkissjóðs lækkað úr 46% af landsframleiðslu árið 1997 niður í um 17% á þessu ári.
Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að talsverður hluti af lánum sem tekin eru af hálfu ríkissjóðs er ætlaður til endurlána til Lánasjóðs námsmanna og fleiri aðila og aukast því samtímis kröfur ríkissjóðs á þá aðila. Auk þess á ríkissjóður útistandandi verulegar skammtímakröfur í lok hvers árs, einkum vegna skatttekna ársins sem innheimtar eru árið eftir. Með því að draga slíkar lánveitingar og kröfur frá heildarlántökunum fást hreinar lántökur sem gefa betri mynd af eiginlegri skuldabyrði ríkissjóðs og hvernig hún hefur þróast. Á þennan mælikvarða var skuldabyrðin um 33% af landsframleiðslu árið 1997 en lækkar samkvæmt áætlun niður í um 4% í lok þessa árs.
Þá hefur stíft aðhald með ríkisfjármálunum að undanförnu skilað verulegum tekjuafgangi sem hefur gert ríkissjóði kleift að safna upp inneignum í Seðlabankanum þannig að þær eru nú orðnar yfir 100 milljarðar króna samtals.
Þegar tekið er tillit til þessara inneigna með því að draga þær frá hreinum lántökum fæst svokölluð hrein staða ríkissjóðs. Sú staða var áþekk hreinum lántökum árið 1997, eða um 32% af landsframleiðslu, en ef fram fer sem horfir verður hreina staðan ekki aðeins komin í núllpunktinn í lok þessa árs heldur upp fyrir hann og orðin jákvæð um 2% af landsframleiðslu.
Í samanburði við önnur ríki í OECD er Ísland komið í sérflokk hvað varðar skuldabyrðina. Áætlað er að hreinar lántökur hins opinbera að meðtöldum sveitarfélögum verði um 47% af landsframleiðslu hjá OECD-ríkjunum að meðaltali á árinu 2006 en um 9% á Íslandi.