Tekjuskattur lögaðila hækkar enn
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 2. nóvember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Álagður tekjuskattur lögaðila á tekjuárinu 2005 nemur 34,7 milljjörðum.
Hann hefur hækkað frá fyrra ári um nær 11 milljarða eða 46%. Fjöldi gjaldenda tekjuskatts er nær 15.000 og hefur þeim fjölgað frá fyrra ári um 11%. Tekjuskattur lögaðila hefur hækkað nær stöðugt frá því skatthlutfall var lækkað í 18% tekjuárið 2002.
Bankarnir greiða langhæstan tekjuskatt en engu að síður er hann mun lægri en sem svarar þeim tölum sem birtar eru í ársreikningum þeirra. Það stafar að langmestu leyti af því að samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum ber fyrirtækjum að skrá eignir sínar á gangvirði og mismunur á því og kaupverði getur myndað framtíðarskuldbindingu um skattgreiðslu sem fer eftir endanlegum hagnaði þegar eignin er seld. Enda þótt bankarnir séu með starfsemi í mörgum löndum greiða þeir mestan hluta af tekjuskatti sínum hérlendis.
Hægt er að skipta skattgreiðendum í hópi lögaðila upp í þrjá flokka sem hver um sig greiðir um þriðjung af álögðum tekjuskatti. Í hópunum eru hins vegar mjög mismunandi mörg fyrirtæki.
Rúmlega 14.000 lögaðilar greiða innan við 5 m.kr. hver en samtals ríflega 10 milljarða. Fyrirtæki sem greiða frá 5 milljónum og allt að einum milljarði eru um 670 og þau greiða samtals 13 milljarða. Í síðasta hópnum eru 3 bankar sem greiða samtals rúmlega 11 milljarða í tekjuskatt.
Tíu stærstu skattgreiðendurnir greiða 40% af öllum tekjuskatti lögaðila og helmingur hans er greiddur af 70 aðilum. Þess ber að geta að samkvæmt skrám ríkisskattstjóra greiða rúmlega 12.000 skattskyldir lögaðilar engan tekjuskatt.