Aðhald í stjórn efnahagsmála árin 2004 og 2005
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 9. nóvember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Undanfarin ár hefur efnahagslífið á Íslandi verið á mikilli siglingu.
Mestu stóriðjuframkvæmdir Íslandssögunnar hófust árið 2003 og urðu viðameiri með hverju árinu. Búist er við að stærstum hluta framkvæmdanna ljúki á fyrri hluta ársins 2007. Í kjölfar einkavæðingar og aukins frjálsræðis í fjármálastarfsemi komu fram nýjungar á fjármálamarkaði sem höfðu umtalsverð áhrif til að auka eftirspurn í efnahagslífinu. Uppbyggingin í stóriðju var fyrirséð og aðhald í efnahagsstjórn var undirbúið bæði í opinberum fjármálum og peningastjórn Seðlabanka Íslands. Hins vegar var ekki fyrirséð að fjármálaaðstæður heimilanna yrðu eins rúmar og raun bar vitni. Vegna aukinnar innlendrar eftirspurnar er hagvöxtur nú talinn hafa numið 7,7% árið 2004 og 7,5% árið 2005, sem er mun meira en ráð var fyrir gert og því fylgdi tímabundið verulega aukið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum.
Árið 2003 tók ríkisstjórnin upp langtímamarkmið um vöxt útgjalda ríkissjóðs, m.a. til að bregðast við aukinni þenslu í efnahagslífinu. Áður höfðu rammafjárlög verið innleidd til að stýra útgjaldaþróuninni. Jafnframt var ákveðið að draga úr opinberum framkvæmdum. Árangurinn lét ekki á sér standa og útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu drógust saman um 3,5 prósentustig milli áranna 2003 og 2005. Yfir sama tímabil jukust tekjur ríkissjóðs um 3,8 prósentustig af landsframleiðslu, þrátt fyrir breytingar á tekjuskatti til lækkunar árið 2005. Tekjuafkoma ríkissjóðs batnaði því um 7,3 prósentustig af landsframleiðslu þessi ár. Mælingar sýna að aukning aðhalds í fjármálastjórn á Íslandi var með því mesta innan OECD-ríkjanna á þessum tíma. Annars vegar skýrist árangurinn af aðhaldi í útgjöldum ríkissjóðs og hins vegar af því að sjálfvirkir sveiflujafnarar fengu að starfa svo til óáreittir. Tekjuafganginum og söluandvirði Landssímans var ráðstafað til að greiða niður skuldir og mynda 76 milljarða króna inneign hjá Seðlabankanum árið 2005. Ríkissjóður tók því mikið fjármagn úr umferð í einkageiranum og hafði þannig umtalsverð áhrif til að draga úr hagvexti þegar hann var hvað mestur.
Með breytingum á stýrivöxtum reynir Seðlabankinn að stýra verðlagsþróuninni. Miðlunarferlið er flókið og breytilegt, en segja má að stýrivextir hafi áhrif á útlánsvexti, gengi krónunnar og eignaverð sem síðan leiðir til breytinga í ráðstöfun verðmætanna, bæði í innlendri og alþjóðlegri eftirspurn. Samanlagt hefur það áhrif á hagvöxt og myndun spennu eða slaka í hagkerfinu. Það er því erfitt að meta nákvæmlega hver áhrif stjórnar peningamála eru á hagvöxt.
Frá miðju ári 2004 fram til ársloka 2005 hækkaði Seðlabankinn stýrivexti úr 5,3% í 10,5% sem leiddi til styrkingar á gengi krónunnar sem dró úr verðbólgu. Um leið styrkti það kaupmátt heimila og fyrirtækja erlendis, sem hafði áhrif til að beina eftirspurn út úr hagkerfinu. Að því leyti sem gengisþróunin jók viðskiptahallann hafði það áhrif til að draga úr hagvexti. Miðað við nýjustu upplýsingar um framvindu efnahagsmála þessi ár er það metið sem svo að stýrivextir hafi mátt hækka meira en þeir gerðu þar sem verðbólguvæntingar jukust og hækkunin skilaði sé ekki nægilega í hærri raunvöxtum og þar með minni eftirspurn. Líklegt er að aukin alþjóðavæðing fjármálalífsins og nýjungar á fjármálamarkaði hafi dregið úr virkni stýrivaxta hvað varðar útlánsvexti og eignaverð undanfarin ár. Þó er ljóst að stýrivextir höfðu áhrif til lækkunar hagvaxtar þessi ár í gegnum gengisfarveg peningastefnunnar, sem virðist jafnframt hafa orðið virkari.
Miðað við framangreint verður ljóst að bæði ríkissjóður og Seðlabanki Íslands höfðu umtalsverð sveiflujafnandi áhrif á vöxt landsframleiðslunnar árin 2004 og 2005 og að fjármál ríkissjóðs höfðu síst minni áhrif í þá veru en peningastjórn Seðlabankans.