Frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga
Félagsmálaráðherra mun í næstu viku mæla fyrir frumvarpi á Alþingi um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga. Megininntak frumvarpsins er eftirfarandi:
- Íbúafjöldi í sveitarfélögum á hverju ári frá 1967 ráði skiptingu á þeim hluta eigin fjár lánasjóðsins sem myndaður er af framlögum úr Jöfnunarsjóði og ríkissjóði á hverju ári frá stofnun lánasjóðsins, en útistandandi lán um áramót hvert ár ráði skiptingu á þeim hluta eigin fjár sem myndaður er af öðrum rekstrartekjum hvers árs að frádregnum rekstrarkostnaði.
- Lánasjóði sveitarfélaga verði breytt í opinbert hlutafélag í eigu sveitarfélaga í samræmi við framangreinda skiptingu eigin fjár lánasjóðsins. Einnig veiti Alþingi heimild til að færa eigið fé lánasjóðsins niður um þrjá milljarða króna og skiptast þeir fjármunir milli eigenda í hlutfalli við eignarhluti.
- Félagið geti eingöngu verið í eigu sveitarfélaga og stofnana eða fyrirtækja að fullu í eigu þeirra, hámarksatkvæðisréttur eins hluthafa miðist við 15% og ekki verði nein viðskipti með eignarhluti í tvö ár, þ.e. til ársloka 2008.
- Sjóðurinn láni eingöngu til verkefna sem fela í sér þjónustu í almannaþágu. Í ljósi þess hlutverks hans að tryggja sveitarfélögum hagstæðustu lánskjör sem fáanleg eru á hverjum tíma er gert ráð fyrir að tiltekin sérákvæði sem um hann gilda verði áfram í lögum. Um er að ræða ákvæði um skattfrelsi sjóðsins og um heimildir sveitarfélaga til að veita lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar fyrir veittum lánum.
Lánasjóður sveitarfélaga hefur frá stofnun árið 1967 verið óskipt sameign allra sveitarfélaga á Íslandi og hefur hann haft það hlutverk að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Við setningu laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004 setti Alþingi það skilyrði að hafin yrði vinna við að skilgreina eignarhald á sjóðnum. Þeirri vinnu er nú lokið og ríkti alger samstaða á ársfundi lánasjóðsins sem haldinn var í september síðastliðnum um þá skiptingu. Sama má segja um tillögu stjórnar lánasjóðsins um að breyta sjóðnum í opinbert hlutafélag í eigu allra sveitarfélaga.
Með setningu laga nr. 136/2004 var lagaumhverfi lánasjóðsins breytt til samræmis við almenn starfsskilyrði fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði eftir því sem fært var, meðal annars með niðurfellingu á lagaákvæðum um árleg framlög til hans úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og frá ríkissjóði.
Í tengslum við niðurfellingu þessara framlaga var beinum afskiptum ríkisins af rekstri lánasjóðsins hætt og öll ábyrgð á stjórn hans og rekstri færð til sveitarfélaganna. Þá var Lánasjóði sveitarfélaga gert að starfa sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki á grundvelli starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins og undir eftirliti þess og fékk hann starfsleyfi í ágúst 2005. Verði frumvarpið að lögum verða tekin frekari skref í átt að aðlögun lánasjóðsins að almennum starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja.
Frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga (171 KB)