Íslenskukennsla fyrir útlendinga
Mikil fjölgun hefur orðið á fólki af erlendum uppruna sem kemur til Íslands til lengri eða skemmri dvalar og er skýringa á því ekki síst að leita í mikilli eftirspurn eftir vinnuafli og hagsæld hér á landi. Hindrunum fyrir frjálsri för einstaklinga innan hins Evrópska efnahagssvæðis (EES) hefur verið rutt úr vegi og fjölmargir borgarar í Evrópusambandslöndum (ESB) hafa komið hingað, einkanlega frá þeim ríkjum sem gengið hafa í ESB á síðustu árum, en töluverður fjöldi hefur einnig flust hingað frá ríkjum utan ESB.
Fjöldi einstaklinga með erlent ríkisfang sem búsettir eru hér á landi var 5.148 í árslok 1996, 9.850 í árslok 2001 og 13.378 í árslok 2005. Frá áramótum til loka september sl. bættist hratt í hópinn og nemur fjöldi einstaklinga með erlent ríkisfang sem búsettir eru hér á landi nú um 18.074. Hann skiptist þannig að um 10.440 eru með ríkisfang innan EES (önnur en Norðurlönd), 1.301 eru frá löndum í Evrópu utan EES, 2.938 frá Asíulöndum, 1.174 frá N- og S-Ameríku, 1.699 frá Norðurlöndum og 339 frá Afríku. Til viðbótar þessum einstaklingum má telja þá um 4.200 einstaklinga sem hlotið hafa íslenskan ríkisborgararétt frá 1991 en fjölgun í þeim hópi hefur verið hröð og á sl. ári var um 630 einstaklingum veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þessi fjöldi á það sameiginlegt að móðurmál þeirra er ekki íslenska.
Ekki er ágreiningur um að tungumálakunnátta er grundvallarforsenda fyrir fullri þátttöku og aðlögun fólks að íslensku samfélagi. Nauðsynlegt er að taka þessi málefni fastari tökum og skilgreina verkaskiptingu og ábyrgðarsvið einstakra ráðuneyta.
Hvað menntamálaráðuneyti áhrærir er vilji til þess að ráðuneytið beri ábyrgð á og skipuleggi íslenskunám fyrir útlendinga enda fáist fjármunir til að standa undir slíkri starfsemi. Tillögur um skipulag og framkvæmd kennslunnar eru eftirfarandi:
A. Skipulag – umsýsla og eftirlit
Stofnað verði til sérstaks verkefnis um íslenskukennslu fyrir útlendinga með verkefnisstjórn sem í sitji fulltrúar menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra. Markmið verkefnisins verði að koma íslenskukennslu fyrir útlendinga í það horf sem vel verði við unað. Á næstu þremur árum verði lögð áhersla á 200 tíma nám sem mætir þörfum byrjenda í íslensku, óháð bakgrunni þeirra. Í framhaldi af því verði stefnt að því að byggja ofan á þetta námsframboð svo öllum þeim sem hér setjast að verði gert kleift að öðlast nokkra færni í íslensku. Menntamálaráðuneyti hafi yfirumsjón með og beri ábyrgð á þeirri íslenskukennslu fyrir útlendinga sem greidd yrði úr ríkissjóði.
B. Námskrár í íslensku
Fyrir tilstuðlan menntamálaráðuneytis verði samin námskrá í íslensku fyrir útlendinga þar sem miðað er við að nemendur öðlist ákveðna grundvallarfærni í íslensku. Námskráin þarf að vera sveigjanleg þannig að hún mæti þörfum ólíkra hópa, t.a.m. eftir uppruna og námsstigi, og æskilegt er að hún verði sveigjanleg og samansett úr einingum sem má raða saman í stærri heild. Meginmarkmið námskrárinnar verði að skilgreina almenn færnimarkmið í íslensku sem einnig mætti leggja til grundvallar í tengslum við ákvarðanir um veitingu ríkisborgararéttar.
C. Námsefni
Til að tryggja framboð á námsefni sem hæfir markmiðum námskrár er nauðsynlegt að veita styrki til að semja og gefa út námsefni í íslensku. Námsefnið þarf að mæta þörfum fólks af ólíkum málsvæðum og með ólíka getu í íslensku og huga þarf að möguleikum þess að þróa rafrænt námsefni.
D. Menntun og þjálfun kennara
Menntamálaráðuneyti skilgreini lágmarkskröfur sem gera þarf til kennara á þessu sviði. Gert verði sérstakt tímabundið átak með námskeiðahaldi fyrir kennara en jafnframt verði starfandi kennurum með haldgóða reynslu á þessu sviði gefinn kostur á raunfærnimati til viðurkenningar. Forðast verði að loka leiðum eða setja of stíf skilyrði í byrjun. Leitað verði eftir því að semja við viðurkenndan aðila, t.a.m. háskólastofnanir, um að annast menntun og þjálfun kennara.
E. Framkvæmd og tilhögun kennslu
Miðað er við að menntamálaráðuneyti geri viðauka við gildandi þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um að annast umsjón og samningsgerð við fræðsluaðila vegna íslenskukennslu fyrir útlendinga en þó kæmi til greina að gera slíkan samning við annan aðila. Þeir fræðsluaðilar sem hér er vísað til eru símenntunarmiðstöðvar, framhaldsskólar og fyrirtæki sem fær eru um að mæta kröfum námskrár í íslensku fyrir útlendinga og uppfylla þau formskilyrði sem ráðuneytið setur. Miðað er við að hluti fræðslunnar geti farið fram á vinnustöðum í samvinnu við atvinnurekendur.
F. Eftirlit
Menntamálaráðuneyti mun tryggja reglubundið eftirlit með framkvæmd íslenskukennslu fyrir útlendinga. Jafnframt mun ráðuneytið tryggja að upplýsingum um nám og framvindu þess verði haldið til haga í gagnagrunninum Innu þar sem haldið er til haga upplýsingum um nám og námsframvindu einstaklinga.
G. Próf
Vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um íslenskan ríkisborgararétt er jafnframt nauðsynlegt að koma á fót stöðuprófum í íslensku, í þeim tilgangi að gefa umsækjendum um ríkisborgararétt kost á að sýna fram á lágmarkskunnáttu í íslensku. Áhersla verði lögð á færni í almennum samskiptum og við það miðað að til að standast prófið þurfi ámóta kunnáttu og til að standast grunnskólapróf í ensku eða dönsku. Nauðsynlegt er að próf verði haldin a.m.k. tvisvar sinnum á ári.
Kostnaður og fjármögnun
Kostnaður við framangreindar tillögur er verulegur. Ekki er raunhæft að gera ráð fyrir að þeim kostnaði verði mætt með gjaldtöku af þeim sem stunda námið nema að óverulegu leyti. Menntamálaráðuneyti hefur lagt fé til íslenskukennslu fyrir útlendinga á vegum fyrirtækja og símenntunarstöðva, alls um 18 m.kr. á ári en þeir fjármunir voru á sínum tíma ætlaðir til sérstakrar kennslu fyrir útlenda nemendur í framhaldsskólum og full þörf er á að nýta þá fjármuni í því skyni. Til að undirstrika umfang verkefnisins má nefna að 40% barna í einum fjölmennasta grunnskóla landsins, Fellaskóla, eiga sér annað móðurmál en íslensku. Þeirra bíður vonandi nám á framhaldsskólastigi.
Fyrirtæki, sveitarfélög og starfsmenntasjóðir atvinnulífsins hafa einnig lagt fé til námsins en ekki liggja fyrir heildstæðar tölur þar um.
Menntamálaráðuneyti áætlar að kostnaður við framangreindar tillögur verði sem hér segir (sjá töflu að neðan) en fjárhæðirnar eru vitanlega háðar því að mikil óvissa er um hversu margir útlendingar munu sækjast eftir því að læra íslensku. Hafa ber í huga að ríkisborgarar á EES-svæðinu geta sest hér að án sérstakra leyfa og sækjast væntanlega fæstir eftir íslenskum ríkisborgararétti.
Að neðan er miðað er við nemendur séu (a)1.000 til 2.000 á ári næstu 3 árin, (b) að námskeiðahald skv. nýju skipulagi hefjist af fullum krafti síðari hluta næsta árs, (c) að kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs nemi u.þ.b. 75% og að 200 stunda námskeið kosti um 170-200.000 þús. kr. á einstakling (raunkostnaður pr. einstakling er kr. 860-900 á klukkustund í 10-11 manna hópkennslu).
2007 |
2008 |
2009 |
|
---|---|---|---|
a. skipulag, umsýsla og eftirlit |
8 |
10 |
10 |
b. námskrár í íslensku, |
5 |
3 |
- |
c. námsefni; styrkir, útboð |
8 |
12 |
4 |
d. menntun og þjálfun kennara; samningur |
8 |
8 |
4 |
e. framkvæmd og tilhögun kennslu; |
70 |
135-270 |
135-270 |
f. þjónustusamningur um umsýslu |
4 |
4 |
4 |
g. próf, samning og fyrirlagning (dómsm.rn.) |
- |
2 |
4 |
Samtals: |
100 |
172-305 |
162-297 |
Ætla má að kostnaður á næsta ári verði lægri en á komandi árum einfaldlega vegna þess að breytingar á skipulagi og framboði námskeiða kæmu ekki til framkvæmda fyrr en á síðari hluta ársins. Athygli er vakin á því að hér er eingöngu miðað við að 5-10% þess hóps, sem gæti nýtt sér námið m.v. þann fjölda sem nú er í landinu, sæki námið.
Eðlilegt má telja að fleiri en hið opinbera deili þessum kostnaði en rétt þykir að vara við því að ætla þeim sem sækja námið að bera mikinn kostnað af náminu: þá er hætt við að þeir sem síst skyldi ákveði að sækja ekki námskeiðin. Gera má þá kröfu til samtaka launþega og atvinnuveitenda, starfsmenntasjóða og annarra, sem er málið skylt, að þeir taki þátt í greiðslum fyrir námskeiðasókn umbjóðenda sinna.
Ríkisstjórnin ákvað að fela menntamálaráðuneyti framkvæmd framangreinds verkefnis. Var framlögð fjárhagsáætlun samþykkt, með fyrirvara um aðsókn að náminu, þannig að framlög á árinu 2007 til verkefnisins verða 100 m.kr.