Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný gegnumlýsingarbifreið

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 34/2006

Unnið hefur verið að því á vegum fjármálaráðuneytisins um nokkurt skeið að kanna grundvöll fyrir því að kaupa gegnumlýsingarbifreið til notkunar við gegnumlýsingu á gámum og stærri einingum við tolleftirlit.

Ljóst er að með breyttri heimsmynd hafa áherslur í tollgæslu breyst. Nú er mikil áhersla lögð á að efla eftirlit með þjóðaröryggi og innflutningi fíkniefna en áður fyrr var aðaláherslan lögð á tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Alþjóðasamfélagið hefur gert þær kröfur til tollyfirvalda að þau hafi eftirlit með útflutningi sem lið í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Árið 2005 sendu íslensk tollyfirvöld frá sér viljayfirlýsingu til Alþjóðatollastofnunarinnar um að styðja og innleiða reglur til að vernda og auðvelda alþjóðleg viðskipti (Framework of Standards to Secure and Facilitate Global Trade). Megintilgangurinn með reglunum er að tryggja og auðvelda vöruflutninga á heimsvísu, efla samvinnu tollyfirvalda til að bæta hæfni þeirra til að finna vörusendingar sem fela í sér verulega vá og efla samstarf tollyfirvalda og fyrirtækja.

Gegnumlýsingarbifreið mun fyrst og fremst nýtast við öryggiseftirlit í inn- og útflutningi og við fíkniefnaeftirlit en jafnframt við almennt tolleftirlit sem kemur m.a. inn á tekjuöflun ríkissjóðs. Um leið gæti slík bifreið stuðlað að verndun viðskiptahagsmuna ef strangari kröfur yrðu settar um gegnumlýsingu gáma sem fluttir eru frá landinu.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að tillögu fjármálaráðherra að embætti tollstjórans í Reykjavík verði falið að hafa umsjón með að leitað verði tilboða í gegnumlýsingarbifreið með það að markmiði að efla aðgerðir gegn fíkniefnasmygli og til að auka öryggi vöruflutninga. Farið verður fram á 120 m.kr. í þessu skyni í frumvarpi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum