Gæðin sem felast í því að vera foreldri
Frú Vigdís Finnbogadóttir,
góðir ráðstefnugestir.
Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með fyrsta íslenska feðradaginn.
Félag ábyrgra feðra sýnir gott framtak með því að standa fyrir þessari ráðstefnu í tilefni dagsins og er það mikill heiður fyrir mig að fá að ávarpa ykkur hér í dag.
Eins og allir vita hefur annar sunnudagur maímánaðar til margra ára verið helgaður mæðrum víða um heim.
Mæðradagur hefur frá árinu 1934 verið haldinn hátíðlegur á Íslandi og í fjölmörgum öðrum löndum annan sunnudag í maí og sá dagur hefur skipað sérstakan sess í hugum okkar allra í gegnum tíðina. Sambærilegur dagur hefur hingað til ekki verið markaður feðrum hér á landi.
Það voru heiðurskonurnar Margrét Blöndal og Inger Anna Aikman sem óskuðu eftir því að félagsmálaráðherra beitti sér fyrir því að sérstakur dagur yrði með sama hætti helgaður feðrum hér á landi. Að tillögu félagsmálaráðherra samþykkti ríkisstjórnin að annar sunnudagur í nóvember ár hvert skyldi helgaður feðrum á Íslandi. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var tilkynnt Almanaki Háskólans sem hefur staðfest að nýtt dagsheiti, feðradagur, verði formlega skráð í almanakinu fyrir árið 2008.
Með þessu fylgja Íslendingar fordæmi landa víða um heim sem hafa haldið daginn hátíðlegan frá upphafi síðustu aldar. Í hinum enskumælandi heimi er þriðji sunnudagur í júní feðradagur en í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er feðradagurinn annar sunnudagur í nóvember. Svo var einnig í Danmörku um skeið en feðradagur þar er nú haldinn hátíðlegur 5. júní ár hvert.
Saga feðradagsins er mun lengri en ætla mætti. Í Bandaríkjunum kom fyrst fram tillaga um feðradag árið 1909 og var fyrsti feðradagurinn þar í landi haldinn í Washington þann merka dag 19. júní árið 1919. Calvin Coolidge, þáverandi forseti Bandaríkjanna, studdi hugmyndina um feðradag árið 1924 en það var síðan Lyndon Johnson sem með forsetatilskipun árið 1966 festi sérstakan dag helgaðan feðrum í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Richard Nixon gerði loks daginn að sérstökum viðurkenningardegi fyrir feður með opinberri yfirlýsingu árið 1972.
Ef við lítum á söguna í nágrannalöndum okkar þá var feðradagur fyrst haldinn árið 1931 í Svíþjóð og árið 1935 í Danmörku. Og nú er loksins komið að okkur. Það er vel við hæfi nú þegar við búum við þær aðstæður á Íslandi að fleiri feður eru virkir við umönnun barna sinna en nokkru sinni fyrr.
Nú í upphafi nýrrar aldar sjáum við breytta mynd af samskiptum feðra og barna. En með iðnbyltingunni hérlendis við aldamótin 1900 urðu ekki aðeins miklar breytingar á atvinnuháttum Íslendinga, heldur gjörbreyttist einnig fjölskyldulífið. Áður hafði fjölskyldan verið saman allan daginn, allan ársins hring. Börn gengu til verka með foreldrum sínum og foreldrarnir sáu um umönnun þeirra, uppeldi og kennslu að langstærstum hluta. Með iðnbyltingunni fara feður af heimilinu til launavinnu en mæðurnar eru framan af öldinni mestmegnis heimavinnandi og þá með börnin heima. Aðskilnaður feðra og barna hefur líklega aldrei verið meiri en hann var stóran hluta 20. aldarinnar.
Það þarf ekki að líta lengra en til sjöunda og áttunda áratugar síðustu aldar til að sjá að þá var verkaskipting kynjanna mjög skýr, karlarnir unnu utan heimilisins og drógu björg í bú, konurnar unnu heimilisstörfin, eignuðust börn og ólu þau upp. Annars vegar blasti við framfærsluskyldan og hins vegar umönnunarskyldan ef svo má að orði komast. Konur voru vissulega komnar út á hinn almenna vinnumarkað en það var enn litið hálfgerðu hornauga og að minnsta kosti var alveg ljóst að þar var ekki þeirra megin braut í lífinu. Þær áttu fyrst og fremst að vera mæður og húsmæður.
Í dag er þetta gjörbreytt. Íslenskar konur eru með einhverja mestu þátttöku á vinnumarkaði sem um getur og íslenskir karlar taka í meira mæli þátt í uppeldi barna en áður. Ég hika ekki við að fullyrða að lögin um fæðingar- og foreldraorlof frá árinu 2000 er eitthvert stærsta framafaraspor í fjölskyldu- og jafnréttismálum sem stigið hefur verið í áratugi. Rétt til að bregða ljósi á breytingarnar þá sjáum við að árið 1995 tóku níu karlar fæðingarorlof hér á landi. Endanlegar tölur frá því í fyrra liggja ekki fyrir á þessari stundu en árið 2004 tóku 5.600 karlmenn fæðingarorlof hér á landi. Hlutfall karla sem tekur virkan þátt í umönnun barna sinna hefur hækkað með hverju ári sem liðið hefur frá gildistöku laganna. Nú er það því sem næst 90% og ég sé fyrir mér að þessi þróun eigi eftir að halda áfram. Frá því að lögin tóku gildi hafa nærri 20.000 þúsund feður tekið feðraorlof.
Það er ekki síður ánægjulegt til þess að vita að íslenskir karlmenn eru duglegastir allra karla á Norðurlöndum við töku fæðingarorlofs. Ég er sannfærður um þessi mikilvæga breyting hefur haft mikil áhrif og mun hafa margvísleg jákvæð áhrif á framtíð þjóðarinnar. Fjölmörg atriði mætti nefna í þessu sambandi.
Samhengið við frjósemi kvenna hefur verið rætt með tilvísun til rannsókna í Svíþjóð og víðar sem sýna að konur sem upplifa öfluga þátttöku karlsins við umönnun fyrsta barns séu líklegri til að vilja eignast annað barn. Þessi niðurstaða er athyglisverð ekki síst fyrir Evrópulönd þar sem frjósemi kvenna er mjög lág en lág fæðingatíðni er talin eitt helsta framtíðarvandamálið í Evrópu og víðar í heiminum.
Þetta vandamál hefur að vísu blasað við á Íslandi í nokkur ár. Við höfum vissulega haft ákveðna sérstöðu í Evrópu því saman hefur farið einhver mesta þátttaka kvenna í vinnumarkaði sem um getur og ein mesta frjósemi í Evrópu. En það seig á ógæfuhliðina hjá okkur líka um tíma. En nú hefur þróunin sem betur fer snúist við og er fæðingartíðnin nú 2,1 barn á hverja konu. Það er mín skoðun að hér geti ný löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof leikið stórt hlutverk og að það muni hún gera í framtíðinni hvað okkur varðar.
Við höfum tekið þátt í Evrópuverkefninu „Nútímamenn í stækkaðri Evrópu“ (Modern men in enlarged Europe). Þar kemur fram í viðtölum við íslenska feður að feðraorlofið hafi gefið þeim mikið – bæði tilfinningalega og andlega. Þeir dásama þá upplifun að stofna til náins sambands við barnið sitt og það að komast að raun um getu sína til að annast heimili og börn einir og óstuddir. Það sé engin ógnun við karlmennskuna. Þeir telja sig í senn öflugri til að annast uppeldið og færari til að takast á við viðfangsefnin í vinnunni. Það eru frábærar fréttir og undirstrika þau gæði sem felast í foreldrahlutverkinu, ekki síður fyrir feður en fyrir mæður. Feðraorlofið mun áreiðanlega hafa áhrif á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Því hefur verið haldið fram að ein af skýringum á kynbundnum launamun sé að konur séu ótryggari vinnukraftur vegna barnsfæðinga. Gera má ráð fyrir að þegar karlar eru farnir að taka fæðingarorlof til jafns við konur þá jafni það möguleika kynjanna á vinnumarkaði, því karlar og konur deili þannig „kostnaðinum“ af barneignum jafnar en verið hefur. Fróðlegt verður að fylgjast með hver þróunin verður. Á vegum félagsmálaráðuneytisins er nú unnið að rannsóknum á framkvæmd og áhrifum laganna.
Eitt er það í þessu samhengi sem við sjáum ekki í sjónhendingu en mun skipta sköpum þegar fram líður. Það er breyting á viðhorfum og breytt ímynd karlmannsins og sú fyrirmynd sem karlar í feðraorlofi eru fyrir afkomendur sína. Að ég tali nú ekki um mikilvægi tilfinningasambands sem stofnað er til á mikilvægum tíma í lífi barnsins.
En stjórnvöld hafa gert fleira til að styrkja stöðu feðra. Með mikilvægri lagabreytingu árið 1992 opnaðist sá möguleiki að foreldrar semji um að forsjá barna verði sameiginleg þó foreldrar skilji eða slíti sambúð. Þetta úrræði hefur reynst mikið framfaraspor. Árið 2005 nýttu 72,8% foreldra sér þennan möguleika sem sýnir okkur það að sífellt fleiri foreldrar vilja vera raunverulegir foreldrar barna sinna þrátt fyrir að þau geti ekki af ýmsum ástæðum búið saman lengur. Með breytingum á barnalögum síðastliðið vor var sameiginleg forsjá við skilnað eða sambúðarslit gerð að meginreglu sifjaréttar.
Meginstefnan á að vera sú að börnin njóti feðra í sama eða svipuðu mæli og mæðra sinna. Ég tel mjög mikilvægt að samfélagið búi þannig um hnútana að svo megi vera á sem bestan hátt. Félag ábyrgra feðra hefur bent á að ýmislegt í lögum og reglum sem snýr að þessum málum girði fyrir sanngjarna sameiginlega forsjá. Full ástæða er að mínu mati að skoða stöðu forsjárlausra foreldra með tilliti til meðlagsgreiðslna og skattgreiðslna.
Einnig hef ég hug á að kanna sérstaklega stöðu einhleypra karla. Erfið staða þessa hóps hefur á síðastliðnum árum birst meðal annars í að þeir sækja í sívaxandi mæli til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, til félagsþjónustu sveitarfélaga og annarra félagslegra úrræða. Í ársskýrslu Ráðgjafarstofunnar fyrir árið 2005 er bent sérstaklega á að háar meðlags- og skattaskuldir reynist þeim oft erfiðar viðfangs. Þar kemur einnig fram að ýmislegt bendir til þess að þessi hópur „vinni undir yfirborðinu“ eins og það er orðað. Með öðrum orðum vinni hópurinn svart til að forðast að innheimtumenn hins opinbera taki stóran hluta af launum hans. Ástæðan er talin sú að ríkisvaldið má samkvæmt lögum taka allt að 75% af launatekjum þeirra upp í skuldir. Ég tel fyllstu ástæðu til að skoða þetta sérstaklega með það fyrir augum að tryggja rétt einstaklinga til að geta haldið eftir ákveðnum lágmarkstekjum til að geta séð sér farborða. Á Norðurlöndum er löggjöf sem veitir lögvarinn rétt til grunnframfærslu meðan unnið er að greiðslu skulda samkvæmt sérstöku samkomulagi. Ég tel að við ættum að kanna gagnsemi þess að taka upp svipað fyrirkomulag.
Góðir ráðstefnugestir.
Gæði foreldrahlutverksins eru mikil og ég fullyrði það hér að í mínum huga er ekkert hlutverk mikilvægara. Það er mikil gæfa að eiga börn og ég hef fengið að njóta þess. Lykilatriði er að karlar fái aukin tækifæri til að sinna heimilum og börnum og nýti þau. Það var rauði þráðurinn í umræðum á karlaráðstefnunni „Karlar um borð“ sem forveri minn Árni Magnússon stóð að ásamt fleirum þann 1. desember 2005, en það var Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, sem kom fram með hugmynd um jafnréttisráðstefnu eingöngu fyrir karla í ræðu sem hún flutti í Borgarleikhúsinu á 30 ára afmælishátíð norræns samstarfs í jafnréttismálum árið 2004. Á ráðstefnunni kom skýrt fram að karlar eru áhugasamir um jafnréttismál og tala um þau ekki eingöngu út frá kröfum kvenna heldur einnig út frá sínum eigin kröfum um breytingar og framfarir. Þannig á það líka að vera ef við göngum út frá því að jafnréttismál séu mannréttindamál. Það eru þau svo sannarlega.
Ég deili skoðun forvera minna, þeirra Árna Magnússonar og Jóns Kristjánssonar, um að aukin þátttaka karla í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna sé mikilvæg. Ég er líka sammála því að alþjóðleg ráðstefna um karla og jafnrétti í anda Vigdísar gæti verið lyftistöng fyrir umræðu og aðgerðir í jafnréttismálum. Vigdís Finnbogadóttir er okkar bakhjarl sem fyrr og er stefnt að ráðstefnu á næsta ári.
Í mínum huga hefur aldrei verið mikilvægara að báðir foreldrar komi að umönnun barna sinna en einmitt í dag. Ég vænti þess að sú ráðstefna sem hér er haldin muni undirstrika það enn frekar og síðast en ekki síst að okkur takist sameiginlega, mæðrum og feðrum, að auka gæði lífs okkar og barna okkar í framtíðinni.
Ég veit að í dag kemur margt áhugavert fram sem færir okkur fram um veg.