Stofnun stjórnmálasambands við Síerra Leóne
Fastafulltrúar Íslands og Síerra Leóne hjá Sameinuðu þjóðunum, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Joe Robert Pemagbi, undirrituðu í New York, mánudaginn 13. nóvember, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna.
Síerra Leóne er í Vestur-Afríku með strönd að Atlantshafi og landamæri að Gíneu í norðri og Líberíu í suðri. Síerra Leóne er fyrrum nýlenda Bretlands og öðlaðist sjálfstæði árið 1961. Landið byggja um 6 milljónir íbúa. Sérstök skrifstofa SÞ er nú starfrækt í Síerra Leóne sem vinnur með þarlendum stjórnvöldum að uppbyggingarstarfi eftir stríðsátök undanfarinna ára.
Fastafulltrúarnir ræddu á fundi sínum möguleika á samstarfi ríkjanna á sviði sjávarútvegs en við strendur Síerra Leóne eru m.a. auðug rækjumið. Mikil áhersla er nú lögð á uppbyggingu mannauðs, þar á meðal starfsþjálfun á sviði sjávarútvegs.