Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2006 Matvælaráðuneytið

Ársskýrsla AVS 2006

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Ársskýrsla AVS 2006

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra kynnti í dag ársyfirlit AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Sjóðurinn veitti 65 styrki á árinu 2006, samtals að upphæð um 231 milljón króna. Að þeim verkefnum sem hlutu styrk koma 120 einstaklingar frá u.þ.b. 80 fyrirtækjum, stofnunum og háskólum. Ætla má að AVS rannsóknasjóðurinn hafi frá upphafi stuðlað að nýsköpun og rannsókna- og þróunarstarfsemi fyrir um a.m.k. 1 ½ milljarð króna. Á blaðamannafundinum sagði sjávarútvegsráðherra nauðsynlegt að festa sjóðinn í sessi til lengri tíma. Hann hafi þjónað tilgangi sínum vel og verið rannsóknum og þróun í sjávarútveginum mikil lyftistöng.

Þetta er fjórða starfsár sjóðsins og var það með svipuðu sniði og árið á undan. Sjóðurinn hafði til ráðstöfunar 210 milljónir króna og eins og áður sá hann um umsóknir vegna sérstakrar fjárveitingar til rannsókna á eldi sjávardýra, en til slíkra verkefna er ráðstafað 19,1 milljón á ári. Auk þess hefur sjóðurinn samstarf við Líftækninet í auðlindanýtingu með þeim hætti að taka við umsóknum og meta þær í faghópum AVS.

 

AVS sjóðurinn hefur auk þess umsjón með umsóknum vegna þorskkvóta til áframeldis. Faghópur AVS í fiskeldi lagði mat á þær umsóknir og lagði fram tillögur til stjórnar um úthlutun á þeim 500 tonnum sem eru til ráðstöfunar ár hvert.

 

Á árinu 2006 bárust 128 umsóknir um styrki, 13 umsóknir vegna þorskkvóta til áframeldis og 7 umsóknir í líftækninetið.

 

Samstarfið við Tækniþróunarsjóð hélt áfram á árinu og eru nú nokkur stór og öflug verkefni

fjármögnuð af sjóðunum í sameiningu. Þetta gerir það að verkum m.a. að verkefnin eru mun betur fjármögnuð og ætti það að auka líkurnar á að þau skili meiri árangri fyrir íslenskan sjávarútveg.

 

Styrkir AVS eru aldrei hærri en sem nemur um 50% af kostnaði hvers verkefnis, en oft er

styrkhlutfallið þó lægra. Frá upphafi starfseminnar hefur AVS sjóðurinn úthlutað 210 styrkjum að upphæð rúmlega 640 milljónir króna. Það er því ekki fjarri lagi að áætla að sjóðurinn hafi  stuðlað að nýsköpun og rannsókna- og þróunarstarfsemi fyrir um a.m.k. 1 ½ milljarð króna. Alls fá 65 verkefni styrk árið 2006, og eru rúmlega 120 einstaklingar frá um 80 fyrirtækjum, stofnunum og háskólum þátttakendur í þessum verkefnum.

 

Ráðstöfunarfé til sjóðsins beint eða óbeint hækkar á næsta ári með viðbótarfjármagni sem kemur úr ríkissjóði. Annars vegar er gert ráð fyrir að 25 milljónum verði varið ár hvert til sérstaks verkefnis í kynbótum á þorski og hins vegar að á næstu þremur árum verði 10 milljónum króna varið árlega til markaðsátaks í sölu bleikjuafurða. Með þessu viðbótarframlagi til sjóðins gefst tækifæri til að styrkja og efla fleiri rannsókna- og þróunarverkefni í greininni.

 

AVS sjóðurinn heldur úti öflugri heimasíðu www.avs.is þar sem er að finna fréttir af verkefnum og upplýsingum um öll verkefni sem styrkt hafa verið. Nýlega var settur upp listi þeirra verkefna sem hafa skilað skýrslum og heimilt er að birta. Nú má nálgast rúmlega 30 skýrslur og greinar á vefnum.

 

AVS rannsóknasjóðurinn starfar á vegum sjávarútvegsráðuneytisins og veitir styrki til rannsókna- og þróunarverkefna sem auka verðmæti sjávarfangs. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS sjóðsins eru veittir til hagnýtra rannsókna og þróunarverkefna og eru ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna- og háskólastofnunum. Stjórn sjóðsins felur fjórum faghópum að fara yfir og meta faglega umsóknir sem berast og leggur síðan tillögur fyrir sjávarútvegsráðherra um styrki.

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 14. nóvember 2006

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum