Málþing í tengslum við endurskoðun grunnskólalaga 25. nóvember kl. 9:30-13:00
Nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins hefur frá því í vor verið að störfum við heildarendurskoðun grunnskólalaga nr. 66/1995 með síðari breytingum. Formaður nefndarinnar er Guðrún Ebba Ólafsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra. Auk hennar sitja í nefndinni Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ fulltrúi ráðherra, Jón Kr. Sólnes, lögmaður og Gerður G. Óskarsdóttir sviðsstjóri menntasviðs Reykjavíkur, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Unnar Þór Böðvarsson skólastjóri Hvolsskóla og Þórður Árni Hjaltested varaformaður Félags grunnskólakennara, tilnefndir af Kennarasambandi Íslands, og María Kristín Gylfadóttir, formaður Heimilis og skóla, tilnefnd af Heimili og skóla.
Í tengslum við endurskoðunina stendur menntamálaráðuneytið fyrir málþingi um framtíðarsýn í málefnum grunnskólans og ný grunnskólalög laugardaginn 25. nóvember kl. 9:30-13:00. Þingið er liður í víðtæku samráði um ný grunnskólalög til að ná sem bestri samstöðu um framtíðarsýn í málefnum grunnskólans og leiðarljós nýrra grunnskólalaga. Það er einkum ætlað fulltrúum frá sveitarfélögum, skólastjórum, kennurum, foreldrum og ýmsum hagsmunaaðilum sem koma að málefnum grunnskólans, sem og öðru áhugafólki. Á málþinginu verður staðan í endurskoðun grunnskólalaga kynnt. Síðan verður fjallað um nokkur helstu álitamálin í tengslum við endurskoðun grunnskólalaga og lögð áhersla á virkni þátttakenda og umræður í hópum. Þeir sem hyggjast taka þátt í málþinginu eru beðnir að skrá sig hjá congress.is.
Málþingið er öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu.