Eigum að leita framfara og nýjunga
Við setningu ferðamálaráðstefnu í morgun sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að fjölgun ferðamanna með auknu álagi á náttúru landsins ætti ekki að vera markmið heldur að auka tekjur og hagnað ferðaþjónustunnar. Magnús Oddsson ferðamálastjóri sagði í ávarpi sínu að stjórnvöld hefðu undanfarin ár skapað atvinnugreininni það umhverfi sem hún hefur nýtt sér til framfara.
Á dagskrá ferðamálaráðstefnunnar var meðal annars kynning á könnunum meðal innlendra og erlendra ferðamanna á viðhorfum til hinna ýmsu þátta ferðaþjónustunnar. Einnig er rætt hvort gæði íslenskrar ferðaþjónustu stæðust væntingar og farið verður yfir framkvæmd ferðamálaáætlunar fyrir árin 2006 til 2015.
Sturla Böðvarsson sagði í ræðu sinni að vitað væri eftir kannanir að það sem erlendir ferðamenn upplifðu jákvæðast við Ísland væri landið sjálft og náttúran og í öðru sæti fólkið og gestrisnin. ,,En það þýðir ekki að við getum lagt hendur í skaut og sagt að þetta sé allt harla gott og ekki megi gera betur. Við eigum að leita framfara og nýjunga í þjónustunni við gesti okkar. Við eigum að skilja þannig við þá að eftir fyrstu heimsókn hingað hafi þeir áhuga á annarri heimsókn. Og ef upplifunin hér er þeim einhvers virði er meira en líklegt að þeir taki fleiri með sér.”
Samgönguráðherra minnti á að 1. mars myndi virðisaukaskattur verða lækkaður á matvælum, veitingaþjónustu og hótelgistingu. Sagði hann að fylgst yrði með því að lækkunin skilað sér í verðlaginu og mikilvægt væri fyrir ferðaþjónustuna að nýta þetta til markaðssetningar. Ráðherra sagði framlög til samgöngumála, fjarskipta og ferðamála hafa vaxið hröðum skrefum síðustu ár. Hann kvaðst hafa sett af stað vinnu til að meta þá tillögu ferðamálaráðs að auknum fjármunum verði af hálfu stjórnvalda varið til markaðssóknar í ferðaþjónustu. Einnig að skilgreindar verði að nýju markaðsaðgerðir stjórnvalda og atvinnugreinarinnar. ,,Þær eiga að vera í stöðugri endurskoðun með árangursmat í huga.”
Þá upplýsti samgönguráðherra að ráðuneytið hefði nýverið samið við Hagstofu Íslands um gerð svonefndar hliðarreikninga fyrir ferðaþjónustuna. Með því fengist skýrari og betri mynd af stöðu og mikilvægi greinarinnar sem muni nýtast stjórnvöldum og einkaaðilum til markvissari ákvarðanatöku. Einnig sagði hann ráðuneytið nú hafa til meðferðar drög að nýjum lögum sem einfalda eiga allt ferli leyfisveitinga fyrir gisti- og veitingastaði. Kvaðst hann binda vonir við að afgreiða megi frumvarpið á Alþingi fyrir vorið.
Undir lok ræðu sinnar greindi samgönguráðherra frá skammtímasamningi við Flugfélag Íslands um styrk vegna áætlunarflugs milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Sagði hann kostnaðinn vera um 58 milljónir króna. ,,Með þessari ákvörðun hefur verið aukið enn við styrki ríkisins við almenningssamgöngur. Munu þessir styrkir nema nærri 750 milljónum króna vegna sérleyfa, ferja og áætlunarflugs,” sagði ráðherra og benti jafnframt á að slíkur stuðningur væri stuðningur við ferðaþjónustuna í landinu.
Meðal niðurstaðna úr viðhorfskönnun hjá innlendum ferðamönnum í október er að afstaða til afþreyingar, gistiþjónustu og upplýsingagjafar fá bestu heildareinkunn. Meðal niðurstaðna úr viðhorfskönnun hjá erlendum ferðamönnum á síðasta sumri er að gæði miðað við væntingar voru betri hjá 36% og svipaðar hjá 58% þeirra 1.712 sem þátt tóku. Viðhorf til viðmóts starfsfólks var á svipuðum nótum en verðlag fékk yfirleitt lága einkunn.