Bætt aðstaða fyrir skemmtiferðaskip undirbúin
,,Ég tel mjög mikilvægt að þessi mikilvæga viðbót við íslenska ferðaþjónustu fái þann sess sem henni ber og tel nauðsynlegt að um leið og tónlistar- og ráðstefnuhúsið er reist við höfnina í Reykjavík verði hugað að bættri aðstöðu skemmtiferðaskipa, gerður nýr viðlegukantur og að hægt verði að veita farþegunum þjónustu innandyra.”
Þetta sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra meðal annars í ræðu sinni á ferðamálaráðstefnu í gær en þar vísaði hann til fjölgunar skemmtiferðaskipa sem hafa viðdvöl í Reykjavíkurhöfn og fleiri höfnum landsins á hverju sumri. Talið er að kringum 190 komur erlendra skemmtiferðaskipa til íslenskra hafna á síðasta sumri hefðu fært höfnunum umtalsverðar tekjur og að um 55 þúsund ferðamenn sem með skipunum komu hefðu varið 300 til 500 milljónum króna í kaup á vörum og þjónustu.
Stjórn Faxaflóahafna hefur samþykkt að leita til skipulagsfræðings um að annast verkefnastjórn við undirbúning fyrir gerð nýs viðlegukants fyrir skemmtiferðaskip í Reykjavíkurhöfn. Jafnframt er hugmyndin að bæta aðstöðu við höfnina til móttöku ferðamanna sem koma með skemmtiferðaskipum og segir samgönguráðherra að nauðsynlegt væri að geta veitt farþegum þjónustu innandyra og í því skyni yrði að huga að nauðsynlegum mannvirkjum.
Fyrirhugað er að nýr viðlegukantur verði gerður niðurundan Sjávarútvegshúsinu við gömlu Skúlagötuna og hefur verkið lengi verið á framkvæmdaáætlun hafnarinnar en ekki tímasett. Skipulagsfræðingi verður falið að undirbúa deiliskipulag svæðisins í samvinnu við hagsmunaaðila, undirbúa nauðsynlegar aðgerðir við rannsóknir svo og verk- og tímaáætlun. Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Faxaflóahafna, segir kostnaðaráætlun ekki liggja fyrir en tillögur að tímasetningu og um umfang verkefnisins verði lagðar fyrir hafnarstjórn á næstunni.
Samgönguráðuneytið hefur fylgst með markaðsstarfi til að laða skemmtiferðaskip til landsins og fagnar þeirri áherslu sem fyrirhugað er að leggja á gerð nýs viðlegukants í nágrenni við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Lögð er áhersla á að ráðuneytið fái að fylgjast með framgangi málsins og að samráð verði haft við hagsmunaðila í ferðaþjónustu varðandi undirbúninginn.