Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Hópbílar fengu umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Hópbílar fengu í gær umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2006 og afhenti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fulltrúum fyrirtækisins verðlaunin við lok ferðamálaráðstefnunnar.

Umhverfisvlaun
Sturla Böðvarsson afhenti viðurkenninguna. Frá vinstri: Gísli Jens Friðjónsson, Pálmar Sigurðsson og Jón Arnar Ingvarsson.

Pálmar Sigurðsson, skrifstofu- og starfsmannastjóri Hópbíla, segir að verðlaun sem þessi sé mikil hvatning fyrir starfsmenn fyrirtækisins og viðurkenning á því að fyrirtækið sé á réttri leið. ,,Við viljum hafa stjórn á þeim umhverfisþáttum sem geta haft neikvæð áhrif á umhverfið okkar, bæði vinnuaðstæður innan dyra með því að lámarka notkun heilsuspillandi efna og ytra umhverfið m.a með því tryggja lágmarks eldsneytisnotkun og þar af leiðandi minni mengun, segir Pálmar.

Um vinnuaðstæður innan dyra segir Pálmar að fyrirtækið hafi greint öll merkingarskyld efni og tekið úr umferð þau efni sem ekki eru talinn æskileg og fundið önnur umhverfisvænni efni í staðinn. ,,Þessi efni voru aðallega notuð í sambandi við viðhald og viðgerðir á bílunum og við fundum einfaldlega önnur efni í staðinn. Þá erum við núna að fara yfir hvort við séum að nota efni sem gætu hugsanlega innihaldið krabbameinsvaldandi efni og ætlum okkur að skipta þeim út ef það kemur á daginn.”

Pálmar segir að ávinningur þess að koma á umhverfisstjórnun sé margvíslegur bæði fyrir starfsmenn og fyrirtækið. ,,Við erum ekki eingöngu að huga að umhverfinu heldur einnig heilsusamlegra og öruggara starfsumhverfi fyrir alla starfsmenn. Fjárhagslegur ávinningur  af slíku starfi er talsveður í okkar rekstri. Við við notum um það bil 1,5 milljón díselolíu á ári á allan flotann og því munar um hvert prósentustig sem okkur tekst að draga úr notkun,” segir Pálmar.

Hópbílar hófu starfsemi árið 1995 og er sinnir hópferðaakstri og ferðaþjónustu og undir hatti þess er einnig fyrirtækið Hagvagnar sem annast akstur strætisvagna. Alls telur bílaflotinn um 80 rútur, stórar sem smáar. Fyrirtækið hefur alla tíð lagt áherslu á að mennta starfsfólk sitt á öllum sviðum, ekki síst á sviði öryggis- og umhverfismála. Þar sem starfsemin getur haft neikvæð áhrif á umhverfið hafa eigendur og stjórnendur fyrirtækisins verið meðvitaðir um að draga sem mest má verða úr slíkum neikvæðum áhrifum. Í því skyni var afráðið árið 2001 að fyrirtækið skyldi vera í fararbroddi í umhverfismálum og fékk það árið 2004 umhverfisstjórnunarkerfið vottaða samkvæmt alþjóðlega  umhverfisstaðlinum ISO 14001. Umhverfisstjórnun er nú orðin hluti af stjórnskipulagi fyrirtækisins.

Hópbílar hf. hafa fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir starf sitt í umhverfismálum má þar nefna Kuðunginn, fyrirtækjaviðurkenningu umhverfisráðuneytisins 2003, og viðurkenningu frá fegrunarnefnd Hafnarfjarðar í fyrra.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum