Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2006 Matvælaráðuneytið

Ársfundur Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu

Ársfundur Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar

Föstudaginn 17. nóvember síðastliðinn lauk í London 25. ársfundi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar, NEAFC. Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á kolmunna, úthafskarfa, norsk-íslenskri síld, og makríl fyrir árið 2007 auk verndunar viðkvæmra hafsvæða og aðgerða gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum.

Mestu tíðindin af þessum ársfundi eru líklega þau að þar náðist samkomulag um stjórn kolmunnaveiða sem öll veiðiríkin samþykkja. Á síðasta ári náðist strandríkjasamkomulag um stjórn veiðanna, sem batt enda á stjórnlausar ofveiðar fyrri ára, en Rússar stóðu utan þess. Aðilar strandríkjasamkomulagsins náðu nú samkomulagi við Rússa sem vissulega markar tímamót þar sem hlutur hvers veiðiríkis hefur verið ákveðin. Ákveðið var að alls verði heimilað að veiða 1.847.000 tonn af kolmunna á árinu 2007, þar sem aðilar strandríkjasamkomulagsins veiða allt að 1,7 milljónum tonna í samræmi við niðurstöðu strandríkjafundar í Þórshöfn í Færeyjum í síðasta mánuði, Rússland allt að 137.000 tonn og Grænland allt að 10.000 tonn. Annað árið í röð verður því dregið úr kolmunnaveiðum og á grunni samkomulagsins verður áfram unnið að því að draga úr veiðunum næstu árin til að tryggja sjálfbærni þeirra til lengri tíma.

Á fundinum náðist samkomulag um að á næsta ári verði leyft að veiða samtals 46 þúsund tonn af úthafskarfa, en það er rúmlega 26% lægra en það viðmiðunaraflamark sem meirihluti NEAFC ríkja samþykkti fyrir árið í ár. Jafnframt verður veiðunum skipt þannig að leyft verður að veiða allt að 65% aflans fyrir 15. júlí 2007. Er það í samræmi við áherslur Íslands um að stjórnun veiðanna grundvallist á tveimur aðskildum stjórnunareiningum eins og Ísland hefur stjórnað sínum veiðum einhliða á sl. árum. Er þetta í fyrsta sinn frá árinu 1997 sem samkomulag hefur náðst meðal allra aðila NEAFC um stjórnun karfaveiða. Ísland vildi ganga lengra, bæði hvað varðar lækkun á heildaraflamarki sem og aðskilnað milli veiðisvæða, en sætti sig við þessa niðurstöðu, fyrir árið 2007, sem málamiðlun. Auk ofangreindrar samþykktar varðandi karfa á Reykjaneshrygg var jafnframt samþykkt að stöðva a.m.k. tímabundið nýhafnar karfaveiðar í alþjóðlegu hafsvæði í Noregshafi í ljósi vísindaráðgjafar.

Norðmenn hafa undanfarin ár haldið á lofti kröfu um hærri hlutdeild sér til handa úr norsk-íslenska síldarstofninum. Samkomulag varð á fundinum að fresta viðræðum um stjórnunarráðstafanir fyrir síldveiðar þar til í desember nk. Fulltrúar strandríkjanna ræddu um að rétt væri að fylgja markmiðum langtímastjórnunar sem samþykkt var 1997 við ákvörðun heildaraflamarks. Myndi það fela í sér að strandríkin miðuðu við 1.280.000 tonna heildaraflamark þegar þau setja sér stjórnunarráðstafanir fyrir árið 2007.

Samþykkt var tillaga um stjórn makrílveiða, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands, líkt og áður, á því að í samkomulaginu er ekki tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.

Samkomulag varð um frekari svæðalokanir á viðkvæmum kórallasvæðum á hafsvæðinu utan lögsagna Bretlandseyja. Byggðu lokanirnar að mestu á tillögu Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES. Þetta er liður í starfi NEAFC að verndun viðkvæmra hafsvæða sem aukin áhersla hefur verið lögð á undanfarin ár. Á ársfundinum nú voru jafnframt samþykktar málsmeðferðarreglur varðandi tillögur um verndun viðkvæmra hafsvæða og endurskoðun á þeirra svæða sem eru vernduð.

Fjallað var um ólöglegar og óábyrgar veiðar á samningsvæði NEAFC og mikilvægi þess að unnið sé áfram að því að koma í veg fyrir slíkar veiðar. Samþykktar voru á fundinum hertar reglur um opinbert eftirlit í höfnum við löndun afla. Í samhengi við gerð reglnanna um hafnaeftirlit var framkvæmd alsherjarendurskoðun á reglum NEAFC um eftirlit og aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum, með það að markmiði að gera þær einfaldari og aðgengilegri, og þar með skilvirkari.

Kynnt var árangursmat á starfi NEAFC sem unnið hefur verið að á síðustu misserum. Á alþjóðlegum vettvangi hefur komið fram krafa um að svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir láti framkvæma slíkt mat og er NEAFC fyrst stonfana á þessu sviði til að gera það.

Í tengslum við ársfundinn hittust á fundi formenn sendinefnda NEAFC og OSPAR samningsins um vernd umhverfis sjávar á Norðaustur-Atlantshafi þar sem til umfjöllunar var frekara samstarf milli þessarra stofnana.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, en við lok fundarinns var Stefán kosinn forseti NEAFC til næstu þriggja ára. Auk fulltrúa sjávararútvegsráðuneytisins voru í sendinefnd Íslands á fundinum fulltrúar utanríkisráðuneytisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofu, Landhelgisgæslu Íslands og hagsmunaaðila í sjávarútvegi.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 18. nóvember 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta