Ávarp umhverfisráðherra á fundi Samtaka iðnaðarins, Er sátt í sjónmáli?
Ágætu gestir
Yfirskrift þessa fundar Samtaka iðnaðarins er Sátt í sjónmáli ?
Þá er verið að höfða til sáttar á milli auðlindanýtingar og verndunar.
Byrjum á auðlindanýtingunni. Hvað er átt við með auðlindanýtingu ? Auðlindir náttúrunnar eru afskaplega margar og flestar þeirra eru snar þáttur í daglegu lífi okkar. Í húsum okkar rennur ómengað neysluvatn sem dælt er upp úr grunnvatnsgeymum ekki svo langt frá þeirri byggð sem við tilheyrum. Sunnudagssteikin er gjarnan lamb sem óx og dafnaði með því að bíta og brenna þeirri auðlind sem íslensku heiðagrösin eru. Í kvöld verður ef til vill fiskur á borðum, veiddur úr hinni fjölbreyttu lifandi auðlind hafsins. Við ökum mörg héðan heim á bílum sem brenna eldsneyti, bensíni eða díselolíu sem ef til vil eru lítill hluti olíuauðlinda ríkjanna sem lögsögu eiga að hafsbotni Norðursjávarins. Svona má halda áfram með rafmagnið og heita vatnið, álið sem framleitt er hér á landi svo ekki sé talað um landið sjálft og gæði þess sem auðlind. Þá á ég t.d. við mannvirkjagerð þar sem landgæði leyfa, ræktun jarðargróðurs eða efnisnám í vegi eða byggingarefni.
Og náttúruverndin, hún er ein tegund landnýtingar sem skapað getur auð.
Ísland er einstakt land þar sem mótun náttúru gerist í hraðari skrefum en víðast annars staðar. Eldgos og ný hraun stækka landið og breyta ásjónu þess. Nýjar eyjar myndast. Jöklar rjúfa og eyða og flytja meða sér kynsturin öll af fíngerðum jarðefnum niður á láglendið. Jökulárnar kútveltast um farvegi sína og í þær geta komið ógnarleg flóð. Sveiflur í veðurfari, ekki síst hlýnun síðustu 100 árin hefur gert það að verkum að jöklarnir hopa og breytast. Afrennsli þeirra tekur breytingum og ár jafnvel sameinast. Með öðrum orðum landið er stöðugt í mótum og mótunin er svo hröð sums staðar, að kynslóðirnar sjá miklar breytingar á umhverfi og náttúru á sínum lífsferli. Það er því ekkert til sem heitir stöðugt ástand náttúrunnar og umhverfis. Og þó, utan eldvirku gosbeltana virðast myndarlegustu fjöllin taka afar hægfara breytingum. Þannig sá ég fyrir skemmstu 100 ára bæjarmynd úr Reykjavík. Allt hafði síðan þá tekið stakkaskiptum, húsin, sum voru horfin, önnur mikið breytt, göturnar, nú malbikaðar, áður forugar. Fólkið á myndinni er vitanlega öðruvísi útlítandi en í dag. Það eina sem stóð óbreytt og óhagganlegt var Esjan í bakgrunni myndarinnar, nákvæmlega sú sama Esja og við þekkjum í dag.
Um leið og Íslenska þjóðin hefur brotist til bjargálna hefur æði margt í umhverfinu tekið miklum breytingum. Tún hafa verið ræktuð, vegir verið lagðir, vatnsafl virkjað, raflínur lagðar, borað eftir heitu vatni og síðast en ekki síst, þónokkurt landflæmi hefur verið brotið undir íbúðar- og atvinnuhúsnæði og með ströndum byggðar hafnir og sjóvarnagarðar. Allt eru þetta mikilsháttar inngrip inn í náttúruna og hún er ekki söm á eftir.
Við sem lifum í dag vitum ekki alltaf hvað er upprunalegt í okkar umhverfi. Esjan er klárlega upprunaleg og hún er þá líka náttúruleg í sínu umhverfi. Öxárárfoss, er ekki upprunalegur, en hann virkar á okkur ofurnáttúrulegur þar sem hann rennur í dag. Sama má segja um Elliðavatn sem er gamalt uppistöðulón og tignarleg hreindýrin sem líta út fyrir að hafa átt sín heimkynni í íslenskum fjallasal frá upphafi vega.
En hversu mikið inngrip getum við sætt okkur við ? Hvað af okkar náttúru er heilagt þegar kemur að framkvæmdum sem breyta svipmóti þess landsvæðis sem okkur er kært ?
Eðli og inntak náttúruverndar hefur verið að taka breytingum síðustu árin. Náttúruvernd í dag telur efnahagslegar forsendur mikilvægar, ekki síður en siðferðislegar eða menningarlegar forsendur. Í aþjóðaskuldbindingun okkar er eitt höfuðmarkmið náttúruverndar það að við glötum ekki erfðaupplýsingum vistkerfa okkar. Á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg í árið 2002 samþykktu þjóðarleiðtogar heimsins yfirlýsingu um framkvæmdaráætlun um sjálfbæra þróun. Þar er lögð áhersla á varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og sérstaklega tekið fram að stefnt sé að því að stöðva skaða og tap á líffræðilegri fjölbreytni fyrir 2010 í samræmi við markmið samningsins un líffræðilega fjölbreytni.
Sú náttúruverndaráætlun sem nú er unnið eftir, er fyrsta skrefið í þá átt að koma á fót skipulegu neti verndarsvæða til að tengja lágmarksvernd líffræðilegrar fjölbreytni. Út frá þessari meginhugsun hafa Guðlaugstungur norðan Hofsjökuls verið friðaðar sem mikilvægt búsvæði m.a. gæsa. Í sama tilgangi er unnið að stækkun Þjórsárverafriðlands þannig að votlendið allt myndi órofa búsvæðaheild.
Verndun landslags er skemmra á veg komin en önnur friðun hér á landi. Verndun landslags og landslagsforma eru afar mikilvæg, ekki síst fyrir þær sakir að landslag og þ.m.t. jarðmyndanir er eitt helsta tákn Íslands og þess valdandi að að margir ferðamenn sækja landið heim. Það er stórbrotið og verðugt verkefni að horfa til þess hvernig halda má náttúrulegum einkennum lítt snortinna landsvæða sem eru án verulegra ummerkja um búsetu manna. Í strangasta skilningi er ekkert það svæði til á Íslandi sem kallast má ósnortið. Áhrifa mannsins gætti langt inn á hálendið strax á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Enn hefur ekkert svæði á Íslandi verið friðlýst sem víðerni, en með Vatnajökulsþjóðgarði verður þar áþreifanleg breyting á.
Ég er nýlega komin af loftslagsráðstefnunni í Nairobi í Kenýa. Einn morguninn var bein útsending ABC sjónvarpsstöðvarinnar á þættinum “Good Morning America” frá þjóðgarðinum Maasai Mara. Þar voru kynnt til sögunnar hin sjö undur veraldar og sjónvarpsáhorfendum síðan gefin kostur á að útnefna sex ný undur veraldar. Ég veit ekki hvort ég eigi að segja að það hafi komið á óvart, og þó...en eitt þessara sex tilnefndu fyrirbæra var Ísland, þ.e. samspil eldvirkni og jökulíss í náttúru landsins. Þessi tíðindi voru einkar ánægjuleg nú þegar undirbúningur Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðs elds og íss, er langt kominn. Það eru að mínu mati engar ýkjur þegar ég segi að þar séu á ferðinni metnaðarfyllstu áform í náttúruvernd sem fram hafa komið. Málið á sér langan aðdraganda og margir komið að undirbúningi. Mikil áhersla hefur verið lögð á aðkomu heimamenna landeigenda og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu að undirbúningnum og einnig að virkri sjálfstjórn heimamanna að hverju hinna fjögurra svæða sem gert er ráð fyrir að myndi þjóðgarðinn.
Stefnt er að því að Vatnajökulsþjóðgarður nái í upphafi til um 13.400 km2 svæðis þ.e. alls Vatnajökuls auk íslausra svæða umhverfis jökulinn allt til strandar í Öxarfirði. Ekki er víst að það takist í upphafi. Sú nefnd sem mótaði lokatillögu um þjóðgarðinn lagði til afar metnaðarfulla uppbyggingu þjóðgarðsins og þjónustunets hans. Þannig er gert ráð fyrir að byggðar verði fjórar nýjar megin-starfsstöðvar þjóðgarðsins, byggingar sem munu verða einskonar kennileiti þjóðgarðsins.
Vatnajökulsþjóðgarður verður stærsti þjóðgarður í Evrópu og mun hafa mikla sérstöði í náttúrufarslegu tilliti í heiminum. Þessi sérstaða þjóðgarðsins mun í framtíðinni draga að aukinn fjölda ferðamanna, bæði innlendra og erlendra. Mat Rögnvaldar Guðmundssonar ferðamálafræðings á áhrif Vatnajökulsþjóðgarðs á íslenska ferðaþjónustu er það að þjóðgarðurinn muni á árinu 2012 verði farið að tillögum um uppbyggingu hafa aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar um 3-4 milljarða króna á ári.
Miklu skiptir að vel takist til og ég geri mér vonir um að Alþingi afgreiði frumvarpið á þessu þingi og að hægt verði að hefja undirbúning að stofnun Vatnjökulsþjóðgarðs þegar á næsta ári, en reiknað er með að uppbygging hans taki fimm ár.
Í skipulagsmálum þjóðarinnar skortir sárlega einhvern samnefnara þar sem ríkisvaldið getur sett fram stefnu sína í ólíkum málaflokkum. Í þeim frumvarpsdrögum til skipulagslaga sem voru til kynningar og umsagnar meðal fólks nú síðsumars eru ákvæði um landskipulagsstefnu. Með slíku tæki geta stjórnvöld sett fram stefnu sína t.d. hvað varðar samgöngumál, orkunýtingu og náttúruvernd. Það er ákaflega brýnt að slík langtímahugsun eigi sér skýran farveg í skipulagsáætlunum. Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun vinni drög að landskipulagsstefnu skv. áherslum umhverfisráðherra hverju sinni, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og þær stofnanir og ráðuneyti þar sem áætlanagerð á landsvísu er unnin. Umhverfisráðherra gerir tillögu um landskipulagsstefnu og um meðferð hennar fer síðan líkt og gildir um kynningu og möguleika almennings að setja fram athugsemdir við aðal- og deiliskipulagi sveitafélaga líkt og við þekkjum.
Með landskipulagsstefnu er markmiðið m.a. að til verði farvegur til að samræma opinbera áætlun um landnotkun s.s. um orkunýtingu og línulagnir og samgöngumál þjóðarinnar og síðast en ekki síst náttúruvernd.
Yfirskrift þessa málþings er hvort sátt sé í augsýn. Þau hafa á köflum verið nokkuð hatrömm átökin á milli orkunýtingar aðallega vatnsaflsins og verndunar. Ekki hefur nánda nærri í sama mæli borið á átökum vegna annrrar nýtingar náttúrugæða og verndarsjónarmiða. Ég get nefnt vegagerð, fiskveiðar, skógrækt og beitarnot. Með lögununum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem tóku gildi 1994 var stigið afar stórt skref í þá átt að horfa til sjónarmiða umhverfis og náttúru við útfærslu framkvæmda sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfið Lögin hafa ekki síst gert það að verkum að öll hugsun og nálgun við verklegar framkvæmdir er önnur en áður var. Það er ekki svo lítill ávinningur þegar horft er til baka.
Nú er unnið að 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í 1. áfanga var virkjanakostunum raðað niður í 5 flokka eftir hagkvæmni, arðsemi og mikilvægi fyrir umhverfi og náttúruvernd. Þessi vandaða vinna og samanburður sem fæst á milli virkjanakosta færa okkur mikið fram á veginn. Það er mín skoðun að allir þeir kostir sem falla undir flokk A og þeir kostir í B sem ekki er ágreiningur af einhverju tagi verði nýttir til orkuvinnslu. Aðrir kostir í flokkir C, D og E verði nýttir til náttúruverndar af einhverju tagi. Að baki liggur faglegt mat og yfirsýn þar sem helstu viðföng náttúruverndar koma við sögu.
Mörg orkuvinnslusvæði falla nokkuð vel að umhverfinu, s.s eins og vatnsaflsvirkjanir og önnur mannvirki á Þjórsár- og Tungnársvæðinu. Við gerum okkur grein fyrir því um mannvirkjabelti er að ræða. Öllu er haganlega fyrirkomið, hönnun mannvirkja oft fyrir augað og snyrtimennska í fyrirrúmi, en við skulum ekki gleyma því að góð umgengni sýnir í verki hug manna og tilfinningar til landsins. Færð hafa verið rök fyrir því að flestar ef ekki allar vatnsaflsvirkjanir sem ráðist hefur verið í séu afturkræfar, sýnist landsmönnum svo síðar meir að rétt sé að fjarlægja mannvirki sem vatnsaflsvirkjunum tengjast. En auðvitað kemur fram breytt og annað landslag undan miðlunarlónum, jökulbotn sem ekki var þar áður.
Virkjun jarðhita hefur í för með sér meira rask á yfirborði en mig sjálfa hafði grunað. Sérstaklega krefst undirbúningur og rannsóknir þess að fara verður um viðkvæm háhitasvæðin með gát. En auðvitað er það svo að eitthvað rask er óhjákvæmilegt ætli mönnum að takast að nýta jarðhitann til verðmætasköpunar.
Mannvirkjabelti annars vegar og heildir náttúrverndarsvæða er sú sýn og aðferðarfræði sem við eigum að vinna eftir. Jökulsá á Fjöllum og stærstur hluti vatnasviðs hennar verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Orkuvinnsla er þar útilokuð. Að baki mannvirkjabeltis Þjórsár og Tungnár eru Þjórsárverin sem hafa mikið verndargildi. Veita Skaftár um Langasjó hefur verið í umræðunni. Þessi virkjanakostur raðast í flokk B í Rammaáætlun. Sjónarhorn eru ólík varðandi Langasjó og margir hagsmunir sem kunna að togast á. Náttúruverndarmegin eru það þeir sem vilja halda Langasjó eins og hann er og svo eru það hinir sem álíta það kost að aurinn úr Skaftárhlaupum fari í Langasjó eins og raunin var allt fram yfir miðja síðustu öld þannig að hann berist ekki niður í sveitirnar með landspjöllum. Aftur veltum við því fyrir okkur hvað sé upprunalegt og hvað náttúrulegt ?
Hvað háhitann varðar vitum við að nýtanleg svæði eru ekki mörg, eitthvað á annan tuginn. Mörg þeirra eru þegar nýtt eða fyrirætlanir um nýtingu eru langt komnar s.s. á Þeistareykjum og Hellisheiði. Á hálendinu eru þrjú háhitasvæði mitt inn í víðernum hálendisins. Tvö þeirra tengjast eldvirkni þar sem súr kvika og líparít eru í aðalhlutverki. Þetta er vitanlega Torfajökulssvæðið sem talið er að geti gefið mikla orku verði hún nýtt og Kerlingarfjöll. Líparítsmyndanirnar eru fágætar og merkilegar í jarðfræði Íslands að auki velti ég fyrir mér fjarlægð frá orkumarkaði og línulögnum, en sagan sýnir okkur að oftast eru stórir kaupendur orku staðsettir við sjávarsíðuna. Þriðja svæðið er Vonarskarð sem er innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
Í nágrenni höfuðborgarsvæðiðsins hafa Brennisteinsfjöll borið nokkuð á góma. Þau eins og flesta önnur háhitasvæði eru til skoðunar í 2. áfanga Rammaáætlunarinnar. Í umsögn umhverfisráðuneytisins vegna umsóknar um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum kom fram að þau hafi verndargildi sem nánast ósnortið víðerni í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Vísaði ráðuneytið m.a. til umsagna Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands á þá lund að svæðið hefði hátt verndunargildi. Í erindi sem Sveinbjörn Björnsson formaður verkefnisstjórnar Rammaáætlunar flutti á Orkuþingi á dögunum kom fram að orkugeta þessa svæðis er líkast til ekki fjarri því að vera 40 MW. Ef hún reynist ekki vera meiri hljótum við að velta því fyrir okkur hvort jarðhitanýting sé hagkvæm og af hverju orkufyrirtækin skuli yfir höfuð hafa áhuga á vinnslu þarna fjarri vegasambandi á meðan önnur svæði s.s. Hengillinn og Reykjanes eru að gefa margfalda orkugetu á við frummat Brennisteinsfjalla.
Í alþjóðlegri samvinnu í umhverfismálum kemur vel í ljós hvað við Íslendingar erum vel sett hvað varðar endurnýjanlega orku og möguleika til frekari orkuvinnslu. Auk vatnshafls og jarðvarma kunna að vera hér ónýtt tækifæri í framtíðinni í beislun haföldunnar og sjávarfalla svo ekki sé talað um frekari skoðun á vindorku sem til þessa hefur verið á mörkum þess að vera hagkvæm hérlendis. Við höfum miklar skyldur á alþjóðavísu þegar kemur að orkuauðlindum okkar. Það getur flokkast undir eigingirni að setja sig á háan hest á meðan aðrar þjóðir verða að mestu að notast við bruna jarðefnaeldsneytis og kjarnorku sem helstu orkugjafa sína. Á orkusviðinu rétt eins og þegar kemur að skórkostlegri náttúru landsins eigum við mikla möguleika. Við eigum að vera í fararbroddi. En til þess að svo megi verða, þufum við öll að vera samstíga.
Ágætu gestir
Það er verkefni okkar stjórnamálamannann að byggja brýr á milli ólíkra hagsmuna og skoðana. Aðeins með því verklagi er hægt að segja að sátt sé í sjónmáli.