Enn um fjármálastöðugleika á Íslandi
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. nóvember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í ársbyrjun 2006 hófst umræða um það hvort íslenska hagkerfið væri á leið í harða lendingu og tímabil fjármálaóstöðugleika.
Skýrslur frá Fitch Ratings, Merrill Lynch og Danske Bank á vormánuðum töldu verulegar líkur á að slík þróun væri framundan. Við það tækifæri breytti Fitch Ratings horfum ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar en hélt góðri lánshæfiseinkunn óbreyttri. Í því samhengi var bent á vaxandi ójafnvægi í íslensku efnahagslífi, aukna skuldsetningu þjóðarbúsins erlendis og ónógt aðhald í opinberum fjármálum. Gengi íslensku krónunnar og verð hlutabréfa í Kauphöll Íslands tóku dýfu í kjölfarið.
Í vefriti fjármálaráðuneytisins 23. febrúar síðastliðinn og í ritinu Þjóðarbúskapurinn - Vorskýrsla 2006 var komist að annarri niðurstöðu. Bent var á að ójafnvægið væri líklegt til að vera tímabundið, að staða ríkissjóðs væri sterk, að opinber fjármál hefðu skilað umtalsverðu aðhaldi í hagstjórn, að aðhaldsstig peningastjórnar hefði verið aukið til muna, að lífeyrissjóðakerfið væri sjálfbært, að hrein eignastaða fyrirtækja og heimila á Íslandi væri góð, að íslenskt efnahagslíf væri skilvirkt og sveigjanlegt og að hinn alþjóðlegi fjármagnsmarkaður væri líklegur til að ,,haldast áfram rúmur og styðja þannig við framvindu alþjóðlegs og íslensks efnahagslífs.” Því var talin ,,lítil hætta á að sá árangur sem náðst hefur undanfarin ár stöðvist eða gangi til baka.”
Á sumarmánuðum tók íslenska krónan og verð hlutabréfa að rétta úr kútnum og hefur sú þróun að miklu leyti haldist áfram með haustinu. Jafnframt hafa komið fram vísbendingar um að tekið sé að hægja á í efnahagslífinu, sem er í samræmi við spár fjármálaráðuneytisins á árinu. Myndin sýnir nýjustu spá um hagvöxt, vöxt þjóðarútgjalda og viðskiptajöfnuð sem hlutfall af landsframleiðslu á næstu árum. Miðað við þróunina á árinu virðist sú spá enn vera líkleg til að rætast.
Nýlega hafa Fitch Ratings og Merrill Lynch birt skýrslur sem draga upp jákvæðari mynd af horfum í efnahagslífinu þótt enn sé varað við áhættuþáttum. Bent er á að íslenskir bankar hafi lagað úrbótaatriði sem nefnd voru í fyrri skýrslum. Til að mynda hefur verið dregið úr krosseignatengslum og óvissu um endurfjármögnun á þessu og næsta ári hefur verið eytt. Í júlí síðastliðnum tilkynnti Moody’s að stöðugar horfur héldust óbreyttar sem og gott lánshæfismat ríkissjóðs. Í skýrslu Standard & Poor’s frá því í lok október er lögð áhersla á að hér ríki stöðugt stjórnarfar, staða opinberra fjármála sé góð, tekjur á mann séu háar og langtímahorfur hagvaxtar góðar.