Efnahagshorfur á Norðurlöndum
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. nóvember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Efnahagsframvindan á Norðurlöndum hefur á flestum sviðum verið jákvæð undanfarin ár.
Hagvöxtur hefur verið nálægt jafnvægisvexti, atvinnuleysi hefur lækkað, verðbólga hefur verið lág og opinber fjármál hafa skilað tekjuafgangi. Reiknað er með að hagvöxtur á Norðurlöndunum verði að meðaltali um 3,4% árið 2006 og um 3% árið 2007.
Spáð er að heldur dragi úr hagvexti á öllum Norðurlöndum nema Noregi á næsta ári. Verðbólga hefur verið lág á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi. Atvinnuleysi fer óðum lækkandi á Norðurlöndum nema e.t.v. í Finnlandi og Svíþjóð. Í þessum löndum hefur ekki tekist að minnka atvinnuleysið þrátt fyrir ágætan hagvöxt. Þessar upplýsingar ásamt öðrum má sjá í nýútkominni skýrslu norrænu efnahagsnefndarinnar, Ekonomiska utsikter i Norden 2007 (PDF 300 KB).
Vegin meðaltöl | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 |
---|---|---|---|---|
Hagvöxtur, % |
3,1
|
2,9
|
3,4
|
3,0
|
Danmörk | 1,7 | 3,6 | 2,7 | 2,0 |
Finnland | 3,5 | 2,9 | 4,5 | 3,0 |
Ísland | 7,7 | 7,5 | 4,2 | 1,0 |
Noregur | 3,1 | 2,3 | 2,4 | 3,6 |
Svíþjóð | 3,7 | 2,7 | 4,0 | 3,3 |
Verðbólga, % | 0,6 | 1,2 | 1,9 | 2,0 |
Danmörk | 1,2 | 1,8 | 2,0 | 1,8 |
Finnland | 0,2 | 0,9 | 1,5 | 1,3 |
Ísland | 3,2 | 4,0 | 7,3 | 4,5 |
Noregur | 0,4 | 1,6 | 2,5 | 1,8 |
Svíþjóð | 0,4 | 0,5 | 1,6 | 2,5 |
Atvinnuleysi,% | 6,2 | 6,0 | 5,2 | 5,1 |
Danmörk | 6,1 | 5,4 | 4,4 | 4,1 |
Finnland | 8,8 | 8,4 | 7,7 | 7,4 |
Ísland | 3,1 | 2,1 | 1,3 | 2,1 |
Noregur | 4,5 | 4,6 | 3,5 | 3,3 |
Svíþjóð | 6,0 | 6,0 | 5,6 | 5,8 |
Afkoma hins opinbera, %, hlutfall af VLF | 4,0 | 6,2 | 6,8 | 6,3 |
Danmörk | 1,7 | 4,0 | 3,1 | 2,8 |
Finnland | 2,1 | 2,5 | 2,9 | 2,7 |
Ísland | 0,5 | 5,5 | 3,8 | 1,5 |
Noregur | 11,4 | 16,4 | 19,5 | 18,6 |
Svíþjóð | 1,6 | 2,8 | 2,8 | 2,3 |
Afkoma hins opinbera hefur sjaldan verið betri á Norðurlöndum en um þessar mundir. Unnið er að lausn á tilteknum vanda sem flest landanna eru að takast á við og felst í öldrun þjóðanna. Þetta þýðir að færri munu borga skatta til að greiða lífeyri og aðra opinbera þjónustu til æ vaxandi fjölda fólks. Þetta vandamál er ekki í sama mæli á Íslandi þar sem búist er við að þjóðin muni búa við sjálfbæra lífeyrissjóði í framtíðinni, og hún er ung.
Í samanburði við Evrusvæðið koma Norðurlöndin mun betur út hvað snertir helstu efnahagsstærðir. Á undanförnum árum hefur hagvöxtur að meðaltali verið um 2% hærri á Norðurlöndum en á Evrusvæðinu. Sama gildir um hagvaxtarhorfur á yfirstandandi ári og því næsta. Atvinnuleysi á Norðurlöndum er minna sem nemur rúmlega 2% af vinnuaflinu en á Evrusvæðinu. Verðbólgan hefur verið töluvert lægri á Norðurlöndunum en horfur eru um að dragi verulega saman milli svæðanna á næsta ári. Hlutfallslegur munur er hvað mestur varðandi afkomu hins opinbera. Á árinu 2005 var afgangurinn rúmlega 6% af landsframleiðslu Norðurlandanna, en rúmlega 2% af landsframleiðslu halli á Evrusvæðinu. Gert er ráð fyrir að þessi mikli afkomumunur í opinberum fjármálum milli svæðanna verði áfram árin 2006 og 2007.