Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nefnd um Árósarsamninginn hefur skilað áliti sínu

Nefnd sem umhverfisráðherra skipaði til að fara yfir ákvæði Árósarsamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum hefur afhent ráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum. Hlutverk nefndarinnar var að greina efni samningsins og fara yfir hvaða breytingar þarf að gera á lögum ef Ísland fullgildir Árósarsamninginn.

Þess má geta að í vor samþykkti Alþingi lög um upplýsingarétt um umhverfismál og við það jókst réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál verulega enda veita lögin í sumum tilvikum rýmri rétt til upplýsinga en kveður á um í upplýsingalögum. Með því var fyrsta stoð Árósarsamningsins innleidd í íslenska löggjöf.

Nefnd umhverfisráðherra komst að þeirri niðurstöðu að kæmi til fullgildingar samningsins af Íslands hálfu myndi ákvæði hans kalla á eftirfarandi lagabreytingar hér á landi:

  1. Tryggja þyrfti að unnt yrði að leggja ákvarðanir um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framvæmda fyrir dómstóla eða óháða úrskurðaraðila til endurskoðunar og að umhverfisverndarsamtök gætu átt aðild að slíkum málum.
  2. Breyta þyrfti ákvæðum um aðild að kröfu um lögbann þannig að umhverfisverndarsamtök gætu átt aðild að slíkri kröfu. Enn fremur þyrfti að huga að sérákvæðum um skilyrði lögbannstryggingar í málum vegna leyfisveitinga fyrir matsskyldar framkvæmdir þannig að hún væri felld niður eða fjárhæð hennar takmörkuð.
  3. Hugsanlega þyrfti að gera breytingar á lögum um erfðabreyttar lífverur til að tryggja betur kynningu fyrir almenningi og athugasemdarétt áður en veitt er leyfi fyrir vísvitandi losun erfðabreyttra lífvera út í umhverfið.

Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni. Einnig má hér nálgast fylgiskjöl 3 og 4 með skýrslunni.

Við samþykkt laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál á Alþingi síðastliðið vor jókst réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál verulega enda veita lögin í sumum tilvikum rýmri rétt til upplýsinga en kveður á um í upplýsingalögum. Lögin eiga að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd.

Markmið laganna er að stuðla að frjálsum skoðanaskiptum, sterkari vitund um umhverfismál og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana. Markmiðin eru í anda alþjóðlegra þróunar. Þannig var skýrt kveðið á um rétt einstaklinga til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál í Ríó-yfirlýsingunni sem var samþykkt á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun árið 1992. Þar segir í 10. grein að í hverju ríki skuli sérhver einstaklingur hafa aðgang, eftir því sem við á, að upplýsingum um umhverfið sem eru í vörslu opinberra aðila, þar á meðal upplýsingum um hættuleg efni og hættulega starfsemi í samfélagi þeirra.

Lögin sem samþykkt voru í vor ganga lengra en fyrri lög um sömu atriði. Skilgreining á því hvaða upplýsingar teljast varða umhverfismál hefur verið víkkuð. Að auki hafa lögin víðtækari gildissvið en upplýsingalögin hvað varðar skilgreiningu á því til hvaða stjórnvalda frumvarpið tekur. Þau ná þannig til fyrirtækja sem rækja opinbert hlutverk að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkis eða sveitarfélaga, svo dæmi séu tekin, geta fallið undir lögin og ber þá að veita umbeðnar upplýsingar um umhverfismál. Til þess að aðgangur almennings að opinberum upplýsingum um umhverfismál sé ekki háður því hvaða form hefur verið valið á rekstri opinberrar þjónustu var þessi leið valin. Þá hafa lögin að sumu leyti víðtækara gildissvið en upplýsingalögin því þrátt fyrir ákvæði upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einka- og almannahagsmuna þá á almenningur almennt rétt á upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið samkvæmt nýju lögunum.

Lögin leiða því til þess að ekki verði hægt að takmarka aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið þótt slíkar upplýsingar geti skaðað ímynd eða samkeppnisstöðu þess fyrirtækis sem í hlut á. Þannig vega hagsmunir almennings þyngra en hagsmunir fyrirtækja.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta