Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra skipar starfshóp vegna Þjórsárvera

Umhverfisráðherra á fundi með sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps í haust vegna Þjórsárvera.
Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra skipaði í dag starfshóp til að fara yfir og kanna möguleika á stækkun friðlands í Þjórsárverum og endurskoðun á núverandi mörkum friðlandsins og friðlýsingarskilmálum. Starfshópinn skipa Árni Bragason, formaður starfshópsins, Egill Sigurðsson, tilnefndur af Ásahreppi, Þorgils Torfi Jónsson, tilnefndur af Rangárþingi ytra og Gunnar Örn Marteinsson, tilnefndur af Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að framkvæmdir í nágrenni núverandi friðlands og við jaðra þess frá því að friðlýsing var ákveðin árið 1979 hafi vakið upp spurningar um æskilegar breytingar á mörkum þess. Starfshópnum er því falið að fara yfir málefni friðlandsins, meta stöðuna og ræða við sérfræðinga og hagsmunaaðila á svæðinu og gera tillögur um stækkun friðlandsins svo og hugsanlegar breytingar aðrar á mörkum friðlandsins og einstökum atriðum friðlýsingarinnar. Þess er óskað að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2007.

Þjórsárver eru meðal helstu náttúrugersema á Íslandi og hafa mikið verndargildi í alþjóðlegu samhengi. Svæðið er víðáttumesta gróðurvin miðhálendisins auk þess sem þar er að finna mestu varpstöðvar heiðargæsarinnar í heimi. Hluti Þjórsárvera hefur verið friðlýstur frá 1981 og verin hafa verið á skrá Ramsar-samþykktarinnar frá 1990, eitt þriggja slíkra svæða hér á landi. Markmið Ramsar-samþykktarinnar er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem lífsvæði fyrir votlendisfugla. Umhverfisráðherra hefur lýst þeirri skoðun sinni að stækka beri friðlandið og láta af frekari orkunýtingaráformum á svæðinu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta