25. þing Sjómannasambands Íslands, 23. nóvember 2006
Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti
25. þing Sjómannasambands Íslands
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra fjallaði m.a. á 25. þingi Sjómannasambands Íslands, um mikilvægi rannsókna í sjávarútvegi og hve fjárveitingar til þeirra hafa aukist mjög á undanförnum árum.
Í ræðu ráðherra kom fram að framlög sjávarútvegsráðuneytisins til rannsókna – á verðlagi hvers árs – hafa liðlega tvöfaldast frá árinu 1999. Þá var framlagið 967 m.kr. en verður væntanlega 1.938 m.kr. árið 2006. „Á þessu tímabili hefur framlag ráðuneytisins til Hafrannsóknastofnunarinnar hækkað um tæp 74% en til samanburðar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 37,1%. Eins og tölurnar gefa til kynna er hér um að ræða mikla og mikilvæga hækkun á fjárveitingum til þessa málaflokks.“
Fram kom að fjárveitingar frá sjávarútvegsráðuneytinu til Hafrannasóknastofnunarinnar hafa hækkað úr 816 m.kr. á árinu 1999 í um 1.420 m.kr. á þessu ári. Framlag til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins hefur aukist úr 132 m.kr. í 225 m.kr. á sama tímabili. AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi kom til árið 2003 og var um 230 m.kr. úthlutað úr honum árið 2006. Þá er nýtilkomið að veita styrki til sjávarrannsókna á samkeppnissviði. 33 umsóknir bárust um 25 m.kr. sem úthlutað verður á þessu ári. Þá nema aðrir styrkir frá ráðuneytinu til rannsókna um 40 m.kr. Fjárhæðirnar eru á verðlagi hvers árs.
Þá ræddi ráðherra einnig um veiðarfærarannsóknir, Verðlagsstofu skiptaverðs og hlut fólks af erlendum uppruna í að bæta lífskjör hér á landi og hve góðs sjávarútvegurinn hefur notið af starfskröftum útlendinga.
Sjávarútvegsráðuneytinu 23. nóvember 2006