Ættleiðingarstyrkir verði veittir
Niðurstaða er fengin í baráttumál kjörforeldra ættleiddra barna erlendis frá í skýrslu starfshóps um ættleiðingarstyrki. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra boðar frumvarp um styrkina í þessari viku, en hann kynnti skýrslu starfshópsins fyrir ríkisstjórn á föstudag.
Sá möguleiki að taka upp ættleiðingarstyrki hér á landi hefur komið til umfjöllunar á Alþingi nokkrum sinnum frá árinu 1993. Félagsmálaráðherra skipaði í sumar starfshóp til að gera tillögur að frumvarpi um ættleiðingarstyrki og niðurstöðurnar liggja nú fyrir.
Tillaga starfshópsins er að greiðslur ættleiðingarstyrkja að fjárhæð 480.000 krónur hefjist við gildistöku laganna 1. janúar 2007 og að rétt til styrks eigi þeir kjörforeldrar barna sem ættleidd eru eftir gildistökuna. Fjöldi ættleiddra barna erlendis frá hefur undanfarin ár verið að meðaltali 25 á ári.
Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu nemur heildarkostnaður við að ættleiða barn frá um 1,1 milljón króna til um 1,4 milljónum króna. Forsendur við ákvörðun fjárhæðarinnar voru þær að ætlunin væri að veita styrk sem kæmi til móts við heildarkostnað kjörforeldra vegna ættleiðinga en ekki að greiða þann kostnað að fullu.
Skattaumhverfi styrks
Fjármálaráðuneytið hefur fallist á þá tillögu starfshópsins að styrkirnir verði undanþegnir staðgreiðslu en slíkt kallar á breytingu á reglugerð um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, nr. 591/1987, og á A-lið 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þannig að leyfður verði frádráttur frá tekjum sem byggist á sannanlegum kostnaði sem fólk þarf að standa undir við ættleiðingu barns.
Styrkur bundinn við útgáfu forsamþykkis
Tillaga starfshópsins að frumvarpi felur í sér að ættleiðingarstyrkir nái eingöngu til þeirra er hafa fengið forsamþykki til að ættleiða erlent barn, í samræmi við lög um ættleiðingar, nr. 130/1999.
Milliganga löggilts ættleiðingarfélags
Samkvæmt 18. gr. reglugerðar um ættleiðingar, nr. 238/2005, sem sett er með stoð í 2. mgr. 35. gr. laga um ættleiðingar, er þeim sem óska eftir forsamþykki til að ættleiða erlent barn skylt að leita milligöngu um ættleiðinguna hjá félagi sem fengið hefur löggildingu dómsmálaráðherra til þess að annast milligöngu um ættleiðingar milli landa. Þótt undantekningar finnist frá þeirri meginreglu í 19. gr. reglugerðarinnar þykir starfshópnum rétt að binda greiðslu styrksins við ættleiðingar sem fara fram fyrir milligöngu löggiltra ættleiðingarfélaga því milliganga ættleiðingarfélags tryggir að ættleiðingin fari fram í samvinnu við hið erlenda ríki. Af þessu skilyrði leiðir að svokallaðar fjölskylduættleiðingar falla utan reglnanna, en með því er átt við ættleiðingu á barni sem býr í öðru ríki en er í fjölskyldutengslum við eða er barn annars umsækjanda. Enn fremur falla utan gildissviðs reglnanna þau tilvik þegar umsækjendur fá forsamþykki til að ættleiða ótilgreint erlent barn án milligöngu löggilts ættleiðingarfélags, en slíkar ættleiðingar eru afar fátíðar enda mjög ströng skilyrði fyrir þeim.
Önnur atriði í skýrslu starfshópsins
Starfshópurinn kynnti sér hvernig greiðslum ættleiðingarstyrkja annars staðar á Norðurlöndum er háttað en síðastliðin tíu ár hafa kjörforeldrum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð verið greiddir ættleiðingarstyrkir. Árið 2002 hófu Finnar að greiða slíka styrki.
Í skýrslunni er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun, en undir hana heyrir nú þegar starfsemi Fæðingarorlofssjóðs, hafi umsjón með framkvæmd ættleiðingarstyrkja og að yfirstjórn málaflokksins verði hjá félagsmálaráðherra sem jafnframt hafi eftirlit með framkvæmd laganna.