Breytingar á skipan saksóknara
Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið að höfðu samráði við ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins að gera breytingar á skipan saksóknara í tengslum við þær umfangsmiklu skipulagsbreytingar á löggæslumálum sem taka gildi um næstu áramót.
Jóni H.B. Snorrasyni, saksóknara og yfirmanni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, hefur verið falið að gegna embætti aðstoðarlögreglustjóra/saksóknara hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. janúar 2007, og mun hann stýra lögfræði- og ákærusviði embættisins.
Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara hjá ríkissaksóknara, hefur frá sama tíma verið falið að gegna embætti saksóknara efnahagsbrota og yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.
Agli Stephensen, saksóknara hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, hefur verið falið að gegna embætti saksóknara á skrifstofu ríkissaksóknara frá og með 1. janúar 2007. Egill mun þó starfa fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið fyrst um sinn, fram til 1. júlí 2007, að ýmsum sérverkefnum á vegum lagaskrifstofu ráðuneytisins.
Reykjavík, 28. nóvember 2006