Fæðingarorlofs- og umönnunargreiðslur samrýmanlegar
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra lýsti því yfir á Alþingi 1. nóvember síðastliðinn að hann myndi beita sér fyrir breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á yfirstandandi þingi þannig að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og umönnunargreiðslur gætu farið saman. Í félagsmálaráðuneytinu hefur verið samið frumvarp sem tryggir að greiðslurnar séu samrýmanlegar og ríkisstjórnin samþykkti í morgun framlagningu þess.
Á Alþingi hefur ítrekað verið fjallað um samræmingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum, annars vegar og umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum, hins vegar. Fram til þessa hafa greiðslur í fæðingarorlofi og réttur til umönnunargreiðslna ekki farið saman, foreldrar sem átt hafa rétt til greiðslna í fæðingarorlofi hafa ekki á sama tíma getið þegið umönnunargreiðslur.
Í félagsmálaráðuneytinu hefur nú verið samið frumvarp í þessu skyni. Hér eftir verði því greiðslur í fæðingarorlofi og umönnunargreiðslur samrýmanlegar.
Að auki er í frumvarpinu að finna ákvæði um nauðsynlegar breytingar á lögunum þar sem félagsmálaráðherra hefur ákveðið í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2004, að fela Vinnumálastofnun vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Fram að þessu hefur varsla sjóðsins verið hjá Tryggingastofnun ríkisins.