Formleg opnun Evrópuskrifstofu
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sagði það vera brýnt að sveitarfélögin beittu sér á sameiginlegum vettvangi Evrópuþjóða þegar hann ávarpaði gesti í tilefni af opnun Evrópuskrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel miðvikudaginn 22. nóvember.
„EES samningurinn veitir okkur mikilvægan rétt til þess að koma að málum á undirbúningsstigi hjá framkvæmdastjórn ESB“ sagði ráðherra í ávarpi sínu. „Með því að vera virkir þátttakendur á þeim vettvangi getur Ísland haft áhrif og kynnt hagsmuni sína og sjónarmið á sama hátt og aðildarríki ESB. Þar fyrir utan getur Ísland nýtt sér margskonar tækifæri til að verja hagsmuni sína innan EES samstarfsins með viðræðum og samstarfi á hinum mismunandi stigum Evrópusamstarfsins. Því er mikilvægt að einnig íslensk sveitarfélög taki þátt í Evrópusamstarfinu, líkt og sveitarfélög frá öðrum ríkjum Norðurlanda hafa gert frá upphafi.“
Á annað hundrað manns komu í móttöku við þetta tækifæri og óskuðu Sambandi íslenskra sveitarfélaga til hamingju með áfangann.
Markmiðið með stofnun skrifstofunnar er að fylgjast betur með undirbúningi stefnumótunar, löggjafar og annarra ákvarðana Evrópusambandsins, sem geta haft áhrif á hagsmuni íslenskra sveitarfélaga, og innleiðingu þeirra í EES-samninginn, með það fyrir augum að koma sjónarmiðum íslenskra sveitarfélaga á framfæri eins snemma og mögulegt er og til þess að bæta upplýsingamiðlun til Sambands íslenskra sveitarfélaga og íslenskra sveitarfélaga um Evrópumálefni.
Skrifstofan er til húsa á sama stað og skrifstofur sveitarfélagasambanda annarra Norðurlanda við Rue de la Science í miðborg Brussel, en náið samstarf er á milli allra þessara aðila. Eins mun skrifstofan starfa í samvinnu við fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu og aðra aðila sem vinna að hagsmunum Íslands í Brussel. Forstöðumaður skrifstofunnar er Anna Margrét Guðjónsdóttir.