Stofnun stjórnmálasambands við Líberíu
Fastafulltrúar Íslands og Líberíu hjá Sameinuðu þjóðunum, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og M. Nathaniel Barnes, undirrituðu í New York, þriðjudaginn 28. nóvember, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna.
Líbería er í Vestur-Afríku með strönd að Atlantshafi og landamæri að Síerra Leóne, Gíneu og Fílabeinsströndinni. Landið byggja um það bil 3.5 milljónir íbúa.
Friðargæslulið Sameinuðu Þjóðanna hefur aðsetur í Líberíu og samtökin vinna með þarlendum stjórnvöldum að uppbyggingarstarfi eftir blóðuga borgarstyrjöld undanfarinna ára.
Fastafulltrúarnir ræddu á fundi sínum tvíhliða samskipti ríkjanna þ.á m. möguleika á samstarfi ríkjanna á sviði sjávarútvegs.