Styrkur til ráðgjafarmiðstöðvarinnar Sjónarhóls
Félagsmálaráðuneytið heldur áfram stuðningi við rekstur Sjónarhóls, ráðgjafarmiðstöðvar fyrir foreldra barna með sérþarfir, sem hófst við upphaf starfseminnar á árinu 2004. Styrkurinn er að fjárhæð 15 milljónir króna á ári í þrjú ár. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra undirritar nýjan samning þessa efnis miðvikudaginn 29. nóvember kl. 11.30 á Háaleitisbraut 13, 4. hæð.
Samkomulagið felur í sér að á samningstímanum býður Sjónarhóll þjónustu og styður við foreldra og aðra aðstandendur barna með sérþarfir með ráðgjöf, viðtölum og námskeiðum. Tilgangurinn er að nýta þekkingu og reynslu þeirra samtaka sem standa að starfsemi félagsins til þess að bæta þjónustu og styðja við foreldra og aðra aðstandendur barna með sérþarfir. Þjónusta Sjónarhóls skal vera til reiðu fyrir alla landsmenn en starfsstöð félagsins er í Reykjavík. Þjónustan skal vera án endurgjalds.
Markmiðið með starfi Sjónarhóls er að fjölskyldur barna með sérþarfir njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara við aðrar fjölskyldur í landinu og búi við lífsskilyrði sem geri þeim kleift að lifa eðlilegu lífi.
Actavis hf., Landsbankinn, Össur hf., Pokasjóður og Hringurinn verða áfram rekstrarlegir bakhjarlar auk þess sem Vífilfell bætist í hópinn.
Fulltrúum fjölmiðla er sérstaklega boðið að vera viðstaddir þessa athöfn.