Vísitölubundinn persónuafsláttur
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 23. nóvember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní 2006 er með frumvarpi fjármálaráðherra lögð til breyting á ákvæðum tekjuskattslaga um persónuafslátt.
Verði frumvarpið að lögum mun persónuafsláttur einstaklinga hækka hinn 1. janúar nk. úr 356.180 krónum í 385.800 krónur á ári.
Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að persónuafsláttur verði endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn 1. janúar 2008, í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði miðað við gildandi vísitölu í upphafi og lok viðmiðunartímabilsins, þ.e. frá desember til desember.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjárhæð persónuafsláttar skuli birta með auglýsingu fjármálaráðherra fyrir upphaf staðgreiðsluárs.