Viðhorfskönnun um öryggi í fiskiskipum
Nú stendur yfir meðal sjómanna á fiskiskipum viðhorfskönnun um öryggi um borð í íslenskum fiskiskipum. Könnunin er alþjóðlegt rannsóknarverkefni og hefur að geyma 100 spurningar um viðhorf til mismunandi sviða öryggismála.
Markmið rannsóknarinnar er að draga úr líkum á slysum, meiðslum, starfstengdum sjúkdómum og fleiru þess háttar meðal sjómanna á fiskiskipum. ,,Það er von okkar sem stöndum að þessu verkefni að þú getir sagt okkur með hvaða hætti megi bæta öryggisreglur og starfsaðferðir á sviði öryggismála um borð í þínu skipi,” segir meðal annars í inngangi spurningalistans sem sendur hefur verið sjómönnum. Þar segir einnig: ,,Mikið átak hefur verið gert til þess að auka öryggi við fiskveiðar. Viðhorf sjómanna sjálfra þegar þeir eru við störf er mjög mikilvægur þáttur öryggismála.”
Í innganginum kemur einnig fram að skoskir sjómenn hafi samið fyrstu 83 spurningarnar og kunni sumar því að þykja einkennilegar fyrir íslenska sjómenn. Til að tryggja samræmi milli sjómanna innan Evrópu-sambandsins sé ætlunin að skoða mismunandi viðhorf sjómanna til öryggismála sinna út frá þessum spurningum.
Samgönguráðuneytið og Siglingastofnun Íslands standa að könnuninni hérlendis ásamt verkefnisstjórn áætlunar um öryggi sjófarenda en aðild að henni eiga Landssamband smábátaeigenda, Sjómannasamband Íslands, Landhelgisgæsla Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Félag skipstjórnarmanna, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og samgönguráðuneytið.
Gefinn er frestur til 29. desember til að svara og eru sjómenn hvattir til að taka þátt í könnuninni.