Frumvarp um jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 37/2006
Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tryggingagjald.
Með frumvarpinu eru lagðar til tvíþættar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 7. mars 2004 vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, að tryggingagjald verði lækkað um 0,45% frá 1. janúar 2007. Í öðru lagi er lagt til að ríkissjóður veiti tilteknum hluta af gjaldstofni tryggingagjalds til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða, eða sem svarar 0,15% árið 2007, 0,20% árið 2008 og 0,25% frá og með árinu 2009.
Örorkulífeyrisþegum hjá lífeyrissjóðum hefur fjölgað ört undanfarin ár og voru þeir orðnir tæplega 13.000 í desember 2005. Örorkubyrðin leggst misjafnlega þungt á lífeyrissjóði og getur numið allt frá 6% til 43% af lífeyrisgreiðslum sjóðanna. Í ljósi þess hve misþungt örorkulífeyrisgreiðslur falla á lífeyrissjóði þykir rétt að jafna þann aðstöðumun sem sjóðirnir búa við með einhverjum hætti.
Til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga, gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu hinn 15. nóvember 2005, þar sem sagði að ríkisstjórnin væri reiðubúin að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrði milli lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, með framlagi sem svarar til hluta af tryggingagjaldsstofni og kæmi til framkvæmda á árunum 2007-2009.
Með frumvarpi því sem nú hefur verið lagt fram er gengið lengra en kveðið er á um í yfirlýsingunni og lagt til að jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða eigi sér stað til frambúðar og nái til allra lífeyrissjóða þegar jöfnunin er að fullu komin til framkvæmda. Þótt fyrir liggi að örorkubyrði tiltekinna lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sé nú meiri en örorkubyrði annarra lífeyrissjóða þykir eðlilegt að fjárframlag úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða renni í framtíðinni til allra lífeyrissjóða með starfsleyfi fjármálaráðherra. Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir því að eftir 3 ár, þ.e. frá og með árinu 2010, taki jöfnunin til allra lífeyrissjóða með starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Skipting framlagsins milli lífeyrissjóða mun hins vegar byggja á viðmiðunum sem gera það að verkum að þeir lífeyrissjóðir sem á hverjum tíma búa við mestu örorkubyrðina munu fá stærstan hluta framlagsins.
Reykjavík 1. desember 2006