Hoppa yfir valmynd
1. desember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland orðið aðili að samstarfi Evrópuþjóða um fjarkönnun utan úr geimnum

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra dregur íslenska fánann að húni ásamt Lars Prahm, framkvæmdastjóri EUMETSAT, og Declan Murphy, formanni stjórnar aðaldarríkja EUMETSAT.
EUMETSAT

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra ávarpaði aðildaríkjafund Evrópsku veðurgervihnattastofnunarinnar (EUMETSAT) og dró Íslenska fánann að húni í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Darmstadt í Þýskalandi í gær. Með þeirri táknrænu athöfn umhverfisráðherra varð Ísland þrítugasta ríkið í samstarfi Evrópuþjóða um fjarkönnun utan úr geimnum.

Megintilgangur EUMETSAT-samstarfsins er sá að þróa og reka gervihnetti til að vakta veður og afla gagna til að bæta veðurspár en ekki síður það að afla fjarkönnunargagna sem nýtast í margvíslegum öðrum tilgangi. Með aðild sinni fær Ísland beinan aðgang að myndrænum upplýsingum í hárri upplausn frá gervihnöttum EUMETSAT. Einnig fæst aðgengi að gagnabanka fjarkönnunarupplýsinga en hann hefur að geyma mikilvægar upplýsingar, m.a. um breytingar á yfirborði landsins, útlínum jökla og gróðurþekju sem og yfirborðshita sjávar og hafísútbreiðslu.

Til þessa hefur EUMETSAT einbeitt sér að rekstri fastra gervihnatta yfir miðbaug jarðar, svokallaðra Meteosat tungla, en vegna landfræðilegrar legu landins hefur ávinningur Íslands verið takmarkaður. Nú hefur EUMETSAT hafið rekstur hnatta á breytilegum sporbaugum um póla jarðar. Þeim fyrsta var skotið á loft í síðasta mánuði og gögn frá því tungli og öðrum sambærilegum sem komið verður á sporbaug um jörð á næstu árum koma Íslendingum að fullum notum.

Aðdraganda aðildar Íslands að EUMETSAT má rekja allt til ársins 1997 en þá skilaði nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins tillögum um stefnu Íslands í fjarkönnun og kom með hugmyndir  að uppbyggingu þekkingar og alþjóðlegs samstarfs á því sviði. Ríkisstjórnin ákvað síðan árið 2004 að leita eftir samstarfi við EUMETSAT í þessum efnum.

Samningurinn um aðild Íslands opnar aðgengi stofnana, rannsóknarsamfélagsins og annarra sem vinna með landfræðiupplýsingar að fjarkönnunargögnum bæði í  rauntíma og eins að gagnbanka EUMETSAT.  Það er Veðurstofa Íslands sem fer með framkvæmd samningsins fyrir Íslands hönd, en einfaldan móttökubúnað gagna má setja upp nánast hvar sem er.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta