Umhverfisráðherra afhendir Krakkakoti Grænfánann
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra afhenti náttúruleikskólanum Krakkakoti á Álftanesi Grænfánann í dag. Það var í fyrsta skipti sem Jónína afhenti fánann síðan hún hóf störf sem umhverfisráðherra.
Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Landvernd stýrir Grænfánaverkefninu hér á landi. Markmið verkefnisins er m.a. að minnka úrgang frá skólum, auka umhverfisvitund innan skólans og veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.