Hoppa yfir valmynd
5. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynningarfundur um aðgerðaáætlun gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi

Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi kynnir Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis sem tekur til áranna 2006 til 2011.

Kynningin fer fram í Hringborðssal Þjóðmenningarhússins miðvikudaginn 6. desember kl. 14.

Ásamt ráðherra taka Sigrún Jónsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í samráðsnefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum, og Thelma Ásdísardóttir, fulltrúi 16 daga átaksins, þátt í kynningarfundinum.

Meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar er að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem beinist að konum og börnum sem og að bæta aðbúnað þeirra sem orðið hafa fyrir ofbeldi eða eru í áhættuhópi.

Um er að ræða efnismikla aðgerðaáætlun sem felur í sér 37 aðgerðir. Hverri aðgerð er lýst sérstaklega ásamt tilgangi hennar. Einstökum ráðuneytum hefur verið falin ábyrgð á framkvæmd sérhverrar aðgerðar ásamt því að settur er fram tiltekinn tímarammi um framkvæmdina.

Aðgerðaáætlunin var samin á vettvangi samráðsnefndar félagsmálaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Við gerð áætlunarinnar voru meðal annars höfð til hliðsjónar drög frjálsra félagasamtaka að aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem var send einstökum fagráðherrum í kjölfar 16 daga átaksins 2004.

Fulltrúar fjölmiðla eru velkomnir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta