Breyting á reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í 4. og 7. bekk grunnskóla
Til skólastjóra og skólanefnda grunnskóla
Vakin er athygli á því að gerð hefur verið breyting á 3. og 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 415/2000 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í 4. og 7. bekk grunnskóla.
Hljóðar a - liður 3. mgr. 7. gr. nú svo: "Vegna athugana eða rannsókna samkvæmt b. og c. lið skal farið að lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Um varðveislu upplýsinga sem unnar eru upp úr prófúrlausnum samræmdra prófa í 4. og 7. bekk grunnskóla fer eftir ákvæðum laga um Þjóðskjalasafn Íslands".
Breyting b- liðar 4. mgr.7. gr. felur í sér að framvegis mun framkvæmdaaðili prófanna, Námsmatsstofnun, senda frumrit prófúrlausna til skóla. Málsgreinin hljóðar nú svo: "Innan tveggja vikna frá því að niðurstöður samræmdra prófa í 4. og 7. bekk hafa verið sendar skólum, sbr. 8. gr., skal framkvæmdaaðili þeirra senda frumrit prófúrlausna nemenda til viðkomandi skóla. Prófúrlausnir skulu nýttar við skipulag kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt en síðan afhentar forráðamönnum nemenda eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að úrlausnir hafa borist skólanum."
Slóðin að reglugerðinni er: http://brunnur.stjr.is/mrn/logogregl.nsf/nrar/reglugerdir9342006
Þetta tilkynnist hér með.